„Kallað hola íslenskra fræða“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

„Eigum við von á því að ákvörðun verði tekin um hvort við ætlum að byggja hús yfir íslensk fræði? Eigum við von á því að einhver niðurstaða verði hvað varðar húsnæði fyrir þingið og Þingvelli?“ spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Rifjaði hún upp hugmyndir sem Sigmundur kynnti á síðasta þingi um að minnast 100 ára afmælis fullveldisins árið 2018 með viðbyggingu við Alþingi, framkvæmdum á Þingvöllum og að lokið yrði við Hús íslenskra fræði við við Þjóðarbókhlöðunnar þar sem nú væri aðeins hola. Fundað hefði verið með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna um málið á sínum tíma en síðan hefði ekkert gerst.

„Rætt var um sérstaklega hvort ekki væri eðlilegt að forsætisnefnd Alþingis kæmi að málum þegar rætt væri um nýja byggingu fyrir Alþingi, en aðrar framkvæmdir, sérstaklega þó Hús íslenskra fræða, voru auðvitað gamalkunnugar og ætti að vera okkur kappsmál því að það sem nú er kallað hola íslenskra fræða hefur staðið þar alllengi. Auðvitað fer að líða að því að taka þarf ákvörðun um hvort fylla eigi í holuna eða hvort byggja eigi hús undir handritin og þá starfsemi sem þeim fylgir,“ sagði Katrín og bætti við:

„Þetta snýst ekki bara um varðveislustað, þetta snýst líka um kennslu og rannsóknir á íslensku máli. Við ættum auðvitað að velta sérstaklega fyrir okkur stöðu þess núna þegar hver sérfræðingurinn á fætur öðrum varar okkur við því að við gætum verið að komast á þann stað í hraðri tölvutækniþróun nútímans að íslenskan gæti verið að renna okkur úr greipum. Á meðan er holan þarna enn og minnir okkur á það hvernig við búum að íslenskri tungu í fortíð og framtíð.“

Sagðist hún hafa heyrt að málið væri fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Sigmundur Davíð svaraði því til að hann væri ekki í þeim þingflokki og gæti því ekki sagt til um það hver staðan væri á þeim bæ. Hins vegar sagðist hann sannarlega vona að hægt yrði að halda upp á 100 ára fullveldi landsins með þeim hætti sem rætt hefði verið um. Katrín spurði hvað hefði tafið og sagðist ráðherrann telja að ástæðan væri einfaldlega sú að menn vildu vanda til verka.

„Við háttvirtur þingmaður getum bara sammælst um það að vonandi komumst við að niðurstöðu hvað þetta varðar í tæka tíð til að geta haldið upp á 100 ára afmæli fullveldisins með þessum hætti.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert