Segja sniðgönguna hafa slæm áhrif á ferðaþjónustu

Ferðamenn á Íslandi.
Ferðamenn á Íslandi. mbl.is/Styrmir Kári

„Frá því borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þriðjudaginn 15. september að sniðganga vörur frá Ísrael hafa fyrirtæki innan Samtaka ferðaþjónustunnar fundið verulega fyrir áhrifum tillögunnar.“ Þetta kemur fram í ályktun frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

„Ferðamenn hafa hætt við ferðir til landsins, hatursfullir póstar hafa borist og umræða á samfélagsmiðlum hefur verið ófögur. Á undanförnum árum hefur miklum tíma og fjármunum verið varið í að byggja upp ímynd og ásýnd Íslands sem ákjósanlegs áfangastaðar fyrir ferðamenn. Í þeirri vinnu hefur höfuðborgin Reykjavík gegnt stóru hlutverki. Þúsundir Ísraela sækja landið heim og samfélaga gyðinga í heiminum telur milljónir manna.

Í heimi samfélagsmiðla og nútímafjölmiðlunar er neikvæð umræða gríðarlega fljót að berast. Íslensk ferðaþjónusta byggir að miklu leyti á því að orðspor landsins er gott og ímyndin jákvæð. Því hefur neikvæð umræða um Ísland og Reykjavík fljótt áhrif á ferðaþjónustuna með þeim hætti sem orðið hefur.

Ljóst er að umheimurinn telur að tillagan sem samþykkt var í borgarstjórn hljóti að vera stefna stjórnvalda á Íslandi enda eiga flestir því ekki að venjast að borgir hafi aðra stefnu í utanríkisviðskiptamálum heldur en viðkomandi ríki. Fréttir hafa borist að tillagan verði dregin til baka og lögð fram á nýjan leik í breyttri mynd. SAF telur augljóst að draga verði tillöguna til baka, en telur fráleitt að lýsa því yfir á sama tíma að hún verði lögð fram aftur í breyttri mynd. Það væri eingöngu til þess fallið að gera illt verra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert