Engin stefnumótun í heilbrigðismálum

Frá fundi Viðskiptaráðs í morgun. Frá vinstri: Katrín Jakobsdóttir, Kristján …
Frá fundi Viðskiptaráðs í morgun. Frá vinstri: Katrín Jakobsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Berglind Víðisdóttir. Lengst til hægri situr Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Skortur er á heildrænni yfirsýn yfir heilbrigðiskerfið og engin raunveruleg stefnumótun til lengri tími hefur átt sér stað í málaflokknum hér á landi. Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, á fundi Viðskiptaráðs Íslands um heilbrigðismál í morgun. Ráðið leggur til aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.

Áskoranir í heilbrigðiskerfinu á Íslandi, meðal annars vegna breyttrar aldurssamsetningar og öldrunar þjóðarinnar, voru til umræðu á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Áður hafði ráðið lagt fram skoðun sína á málaflokknum sem er í stuttu máli sú að ekki sé rétt að mæta þrýstingi um aukin útgjöld í heilbrigðismálum í framtíðinni með skattahækkunum heldur með frekari einkarekstri og að afmarka þá þjónustu sem ríkið veitir.

Kristján Þór sagði heilbrigðiskerfið standa mætavel í alþjóðlegum samanburði jafnvel þó að kostnaðarsamara og flóknara væri að halda úti öflugu heilbrigðiskerfi í fámennu samfélagi eins og á Íslandi. Góður árangur ætti hins vegar ekki að blinda mönnum sín eða letja til breytinga.

Milljörðum eytt án upplýsinga um þörfina eða gæðin

Sjálfur segðist hann þannig hafa verið þeirrar skoðunar og styrkst í henni á þeim tveimur árum sem hann hafi gegnt embætti heilbrigðisráðherra að heildræna yfirsýn yfir heilbrigðiskerfið skorti og að ljóst væri að engin raunveruleg stefnumótun til lengri tíma hafi átt sér stað í heilbrigðismálum. Hjá því yrði hins vegar ekki komist mikið lengur.

Ráðherrann sagði að margt væri hægt að gera til að bæta skilvirkni og hagkvæmni og ráðuneyti hans ynni nú að ýmsum verkefnum því tengdu, þar á meðal á sviði lýðheilsumála, geðheilbrigðismála, öldrunarþjónustu og lyfjamála.

Hvað varðaði fjármögnun á heilbrigðiskerfinu fullyrti Kristján Þór að ríkið eyddi milljörðum króna í þjónustu þar sem ekkert mat hafi verið lagt á gæði eða þörf fyrir þjónustuna. Ekki væru gerðar neinar kröfur um hvaða árangur skattgreiðendur vildu fá fyrir milljarðana. Þeir sem stýra kerfinu þurfti tæki til að ná utan um það og sagði ráðherrann að þessu leyti færi skoðun ráðuneytisins og Viðskiptaráðs saman.

Þá gerði hann byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss að umtalsefni. Ekki þýddi að mæta áskorunum framtíðarinnar aðeins með því að tala um þær. Grípa þurfi boltinn og taka til aðgerða. Alþingi hafi samþykkt stefnu í þeim málum og á meðan ekki kæmi fram ný samþykkt á þingi myndi hann sem ráðherra vinna samkvæmt þeirra sem fyrir lægi til þess að bæta aðbúnað bæði sjúklinga og starfsfólks.

Fjallað var um áskoranir heilbrigðiskerfisins á Íslandi á fundi VIðskiptaráðs …
Fjallað var um áskoranir heilbrigðiskerfisins á Íslandi á fundi VIðskiptaráðs á Grandhóteli í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn vilji tvöfalt heilbrigðiskerfi

Auk heilbrigðisráðherra voru þau Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans og núverandi formaðar verkefnastjórnar um betri heilbrigðisþjónustu, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Berglind Víðisdóttir, framkvæmdastjóri Karitas, mælendur á fundinum. Þau voru spurð út í hvernig mæta ætti auknum útgjöldum til heilbrigðismála í framtíðinni. 

Björn sagði að byggja þyrfti á góðum grunni þegar ákveðið væri í hvað ætti að setja peninga í heilbrigðiskerfinu og skýrleika skorti í pólitíkina um þá valkosti sem væru í boði í þeim efnum. Sjálfur sæi hann ekki hvernig ríkið gæti afmarkað þá þjónustu sem það veitir. Það byði hættunni heim á tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem annar hlutinn sýgur til sín betri partinn af starfsfólki. Enginn vilji sjá kerfi þar sem sumir hafi efni á ákveðinni heilbrigðisþjónustu en aðrir ekki.

Útvistun verkefna leiði ekki til kostnaðarauka

Katrín tók undir sjónarmið Björns um hættur tvöfalds heilbrigðiskerfis og benti á að þegar rætt væri um að útvista verkefnum til einkaaðila yrði að líta til þess að kostnaður við kerfið ykist ekki. Um það þekkti hún dæmi úr menntakerfinu og frá Svíþjóð. Þannig væru til dæmis reknir tveir skólar í sama hverfi, annar opinber en hinn einkarekinn. Báðir þægju fé frá hinu opinbera en niðurstaðan væri meiri kostnaður og síðri árangur þar sem starfsfólk sækti í annan skólann en hinn ekki. Benti hún á í þessu samhengi að þó að einstakar aðgerðir væru færðar frá Landspítalanum til einkaaðila þyrfti þekkingin enn að vera til staðar á sjúkrahúsinu.

Áður hafði Björn farið yfir útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi í samanburði við Norðurlöndin. Hér væri útgjöldin rúm 7% af vergri landsframleiðslu og aðeins í Finnlandi væri það lægra. Hagræðing væri engu að síður möguleg í kerfinu eins og reynslan frá Landspítalanum undanfarin ár sýndi.

Katrín sagði merkilegan árangur hafa náðst í hagræðingu spítalans. Mikilvægt væri að byggja á því sem við eigum í stað þess að ráðast í umfangsmiklar breytingar breytinganna vegna. Horfa þyrfti til lengri tíma og öldrunar samfélagsins. Í því samhengi þyrfti að horfa í auknum mæli til lýðheilsumála en með því væri hægt að ná fram mikilli hagkvæmni. Þó að menn horfi nú upp á mikla aukningu lífsstílstengdra sjúkdóma verji Íslendingar ekki háum fjárhæðum til lýðheilsuverkefna.

Þá tók hún undir orð heilbrigðisráðherra um byggingu nýs sjúkrahúss við Hringbraut. Slæmt væri að alltaf væri verið að hræra í þeim málum. Síðast í gær hafi forsætisráðherra sagt á þingi að skynsamlegra væri að reisa nýjan spítala annars staðar og gamli Landspítalinn gæti hentað vel fyrir hótelstarfsemi. Ekki væri gott þegar stefna hefði verið mörkuð að hún væri toguð til og frá.

mbl.is