Skjálftahrina undir Tungnafellsjökli

Jarðskjálftahrina undir Tungnafellsjökli
Jarðskjálftahrina undir Tungnafellsjökli Af vef Veðurstofu Íslands

Jarðskjálfti upp á 3 stig reið yfir um ellefuleytið og átti hann upptök sín undir Tungnafellsjökli. Samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands er skjálftahrina á þessum slóðum núna en ekkert til þess að hafa áhyggjur af.

Hild­ur María Friðriks­dótt­ir sér­fræðing­ur á jarðvár­sviði Veður­stof­unn­ar, segir að jarðskjálftar séu algengir á þessum slóðum en skjálftarnir í morgun hafa flestir verið um 2,5 að stærð.

Jarðvársviðið fylgist grannt með gangi mála en tíu jarðskjálftar sem eru yfir tveir að stærð hafa mælst á þessum slóðum í morgun. „Hrinur eru algengar á þessum slóðum og þetta er ekkert til þess að hafa áhyggjur af,“ segir Hildur.

Í bók Helga Björnssonar, Jöklar á Íslandi, kemur fram að Tungnafellsjökull er 10 km langur og 5 km breiður hveljökull austan við Vonarskarð og suðvestan við móbergsfjallið Tungnafell. Jökullinn þekur að mestu aðra af tveimur öskjum megineldstöðvar. Eldstöðin hefur ekki verið virk eftir landnám en gossprungur frá nútíma eru norðaustan við jökulinn. 

Við mynni Nýjadals, eða Jökuldals, sunnan við jökulinn, er skáli Ferðafélags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert