Snýst líka um forgangsröðun, ekki bara verð

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi á Alþingi í dag að réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu væri ekki tryggður öllum. Hún segir ráðherra verja þessa stefnu með þeim rökum að halda verði fjárhagsáætlun.

Katrín sagði í ræðustóli að augljós þörf væri á sveigjanleika í þessum málaflokki, en að núverandi ríkisstjórn legði aðaláherslu á að tryggja að kostnaður væri ekki of mikill.

Hún benti á að lyf væru í sérstökum lið fjárlaganna og að fjárlögin þoli ákveðna óvissu og benti í því sambandi til framlög til kvikmyndagerðar. „Hvað ætlum við að gera í framtíðinni þegar fleiri og betri lyf koma? Ætlum við að segja nei?“ spurði Katrín. Hún spurði því ráðherra hvort til stæði að auka sveigjanleika í þessum efnum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði íslenska helbrigðiskerfið standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Ein þeirra væri vaxandi framboð nýrra og dýrra lyfja sem bjóða lækningu við sjúkdómum sem áður voru ólæknandi, en að kostnaður væri slíkur að það væri ekki á færi ríkustu þjóða að setja slík lyf í almenna notkun.

Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 6,5 milljörðum til svokallaðra S-merktra lyfja. Þrátt fyrir það væri nauðsynlegt að forgangsraða, og að sú forgangsröðun væri byggð á lagalegum og faglegum mælikvörðum.

„Öll lönd, bæði lítil og stór, eiga í erfiðleikum með að tryggja aðgengi að nýjum og dýrum lyfjum,“ sagði Kristján Þór. Hann sagði að lítið land eins og Ísland ráði ekki við það sem er hægt í stærri löndum. Því væri þörf á samstarfi við nágrannaþjóðir á sviði lyfjamála og að það væri til skoðunar á viðeigandi vettvangi.

„Þetta snýst ekki bara um verð á lyfjum, þetta snýst líka um forgangsröðun,“ sagði Kristján Þór og sagði landlækna Norðurlandanna hafa fundað um þetta 2013, 2014 og nú síðast fyrir nokkrum dögum. Sum Norðurlandanna hafi til að mynda sett á fót nefndir til að sinna þessari forgangsröðun. „Þetta er ekki vandamál sem er bundið við Ísland,“ sagði Kristján Þór.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði VG leggja áherslu á að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðiskerfinu og að allir nytu jafnræðis. „Þess vegna eiga allir að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum.“ Hún sagði dæmin sýna að það væri bjartsýni að hinn frjálsi markaður leysi lyfjamálin. Í ræðu sinni velti hún meðal upp þeim möguleika að hið opinbera tæki til við framleiðslu lyfja. „Á sama tíma hlýtur að koma til greina að hefja á ný lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera. Þá þarf ekki að eyða fjármunum í að flytja inn allra ódýrustu blöndur og lyf,“ sagði Steinunn.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði tímabært að taka umræðu um S-merkt lyf. Hún sagði nauðsynlegt að velta upp siðferðisspurningum og því bæri að þakka fyrir að þessi umræða væri komin inn í þingið. Hún kvaðst sammála heilbrigðisráðherra um að Ísland ætti að vera í samfloti með þjóðum Norðurlandanna í þessum efnum. Hún sagði krónutölulækkun á lið lyfjakaupa í nýjum fjárlögum ekki stafa af niðurskurði heldur vegna hagstæðara gengi krónunnar.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, benti á að þegar almenningur væri spurður þá væri forgangsröðun í þágu heilbrigðiskerfisins iðulega efst í forgangsröðinni. Hann fagnaði jafnframt því sem fram kom að möguleiki væri á auknu samstarfi við Norðurlönd í lyfjamálum. Þó þótti honum nauðsynlegt að sérstök tilvik, eins og þegar einstaklingur smitast af lifrarbólgu C, þá þurfi að skoða slík mál sérstaklega.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði það ekki mega virka „nánast tilviljanakennt“ hvenær ný lyf eru tekin í notkun, og átti þá við ramma fjárlaga hvers árs eða jafnvel hverrar stofnunar fyrir sig. Hann lagði til að faglegur matsaðili hefði úrslitaatkvæði um hvenær ný lyf væru tekin til notkunar og væru gefin, sem ekki stjórnaðist af fjárhagsramma hverju sinni.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að þörf væri á að gera kostnaðar- og ábatagreiningu þegar ákvarðanir væru teknar um notkun nýrra lyfja út frá samfélagslegum sjónarmiðum og mátti skilja af orðum hans, sem þingmenn tóku undir, að kostnaður sem hið opinbera sparar sér í lyfjakaupum gæti komið til baka einhversstaðar annarsstaðar.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, tók undir þessi orð hans, og ítrekaði að í þannig skoðun væri horft á hvað það kostaði að fólk væri veikt, ekki bara í peningum heldur líka í líðan, bæði sjúklingsins og fjölskyldu hans.

Katrín Júlíusdóttir kallaði undir lok umræðunnar eftir að skýr skilaboð kæmu frá heilbrigðisráðherra að skýr skilaboð kæmu frá honum þess efnis að frekar væri horft á líf og limi en síður á kostnað. Kristján Þór átti síðasta orðið í umræðunni þar sem hann þakkaði fyrir þá umræðu sem fram hefði farið. Hann sagði þó að þingmenn væru misvel að sér um þær reglur sem gilda um málaflokkinn. Hann sagði regluverkið allt til staðar og unnið á faglegum grunni.

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson mbl.is/Golli
Steinunn Þóra Árnadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.
Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert