Tvöföldun á Laugavegsreit

Laugavegur 77 mun áfram standa, en á bak við húsið …
Laugavegur 77 mun áfram standa, en á bak við húsið má í nýju skipulagi reisa 5.500 fermetra húsnæði. Aðrar nýbyggingar á reitnum telja tæplega 4.000 fermetra. Brynjar Gunnarsson

Byggingarmagn á Laugavegsreitnum svokallaða mun tvöfaldast miðað við núverandi byggingarmagn á reitnum samkvæmt nýlegu deiliskipulagi sem samþykkt var af Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í síðustu viku og sent áfram til borgarráðs. Fjöldi nýrra íbúða gæti orðið allt að 90 talsins.

Áður hugmyndir um Listaháskóla og verslunarmiðstöð

Reiturinn sem um er rætt hefur stundum verið nefndur Landsbankareiturinn, en þá er vísað til útibús Landsbankans sem var við Laugaveg 77. Markast reiturinn af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Vitastíg. Hann hefur einnig gengið undir nafninu Laugavegsreiturinn. Í dag er húsið að Laugavegi 77 lang stærsta einstaka húsið á reitnum, en þar fyrir aftan, til móts við Argentínu steikhús, er núna bílastæði.

Laugavegsreiturinn/Landsbankareiturinn sem um ræðir. Horft er til þess að tæplega …
Laugavegsreiturinn/Landsbankareiturinn sem um ræðir. Horft er til þess að tæplega tvöfalda núverandi byggingamagn á reitnum. Mynd/mbl.is

Fyrir hrun voru uppi miklar hugmyndir um uppbyggingu á reitnum og á svokölluðum Samsonreit fyrir neðan Hverfisgötuna. Vísaði nafngiftin til eignarhaldsfélags Björgólfsfeðga, Samson properties. Meðal annars átti að byggja þar nýjan Listaháskóla, verslunarmiðstöð og ýmsa aðra uppbyggingu. Þótt stór hluti uppbyggingarinnar hafi átt að vera neðan Laugavegs var einnig stór hluti hennar á Laugavegsreitnum.

Minni heimild en í fyrra skipulagi

Þrátt fyrir heimild fyrir mikilli uppbyggingu á reitnum núna í nýja deiluskipulaginu, þá er engu að síður um að ræða samdrátt frá fyrri áformum sem tengdust Samson framkvæmdunum. Byggingamagn á reitnum er í dag um 9.600 fermetrar, en heimild er til byggingar á um 12.000 fermetrum til viðbótar. Með breytingunni sem borgarráð á eftir að samþykkja verður viðbótarmagnið lækkað niður í rétt tæplega 9.000 fermetra.

Landsbanka/Laugavegs reiturinn. Hér sést bílastæðið, en vinstra megin fyrir miðju …
Landsbanka/Laugavegs reiturinn. Hér sést bílastæðið, en vinstra megin fyrir miðju eru nokkur af núverandi húsum á reitnum. Eggert Jóhannesson

Stærstu breytingarnar verða þar sem núna er bílastæðið fyrir aftan Laugaveg 77, en þar má reisa um 5.500 fermetra byggingu. Við hlið hennar, þar sem nú eru nokkur hús verður heimild að fjarlægja eða rífa nokkur íbúðahús, en önnur eru vernduð.  Samtals verður heimilað að fara í nýbyggingar á þeim reit, sem mun heita Hverfisgata 88-92, upp á rúmlega 3.000 fermetra.

Samkvæmt breytingatillögunni er gert ráð fyrir að allt að 90 íbúðir verði reistar á reitnum, en til frádráttar munu einhverjar íbúðir hverfa þegar nokkur hús verða rifin.

Færa gömul hús til á reitnum

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem sýna núverandi deiliskipulag og breytinguna sem liggur fyrir borgarráði verður auk þess heimild til að fara í frekari nýbyggingar á baklóðum á reitnum, meðal annars við Hverfisgötu 88b og c. Þá er í nýju hugmyndinni leyft að byggja nýtt hús á Laugavegi 73, en þar er í dag rekinn veitingastaður. Húsið er frá 1903 og samkvæmt nýja skipulaginu verður það fært til á reitnum þannig að það standi fyrir aftan Hverfisgötu 86. Auk þess verður húsið við Hverfisgötu 92 og hluti Hverfisgötu 90 færð innan reitsins og segir í tillögunni að með þessu muni myndast „samfellda byggð eldri húsa frá Laugavegi niður að Bjarnaborg, austan Vitastígs.“

Núverandi deiliskipulag fyrir Laugavegsreitinn. Þarna er t.d. gert ráð fyrir …
Núverandi deiliskipulag fyrir Laugavegsreitinn. Þarna er t.d. gert ráð fyrir talsvert stærri nýbyggingum við stóra bílastæðið og Hverfisgötuna. Mynd/Reykjavíkurborg
Úr tillögu að breyttu deiliskipulagi sem Umhverfis- og skipulagsráð hefur …
Úr tillögu að breyttu deiliskipulagi sem Umhverfis- og skipulagsráð hefur samþykkt og var vísað til borgarráðs. Mynd/Reykjavíkurborg



Samhliða breytingum á byggingamagni var samkomulag gert við lóðaeigendur um færslu á göngustíg sem átti að vera fyrir miðjum reitnum. Færist hann í áttina að Vitastíg, en mun samhliða nýtast sem aðgengi að bakhúsalóðunum sem þar eru, meðal annars þar sem Laugavegur 73 verður fluttur.

Gamma og ÞG verktakar eigendur lóðarinnar

Eigandi að Hverfisgötu 94-96, þar sem nú er bílastæðið, er rekstrarfélagið Gamma, en hinn hlutinn af Laugavegsreitnum er í eigu eignarhaldsfélagsins Blávíkur. Samkvæmt frétt Kjarnans frá í fyrra eru það Þorvaldur H. Gissurarson, framkvæmdastjóri ÞG verktaka, og Ingi Guðjónsson, annar stofnenda Lyfju og fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem fara fyrir Blávík ásamt hópi fjárfesta.

Í því skipulagi sem enn er í gildi var ákvæði um 400 stæða bílastæðakjallara sem Bílastæðasjóður átti að byggja. Í nýju hugmyndinni verður ekkert af þeim áformum, heldur munu lóðareigendur sjá um stæði, en gert er ráð fyrir einu stæði á hverja íbúð, auk þess sem eitt stæði á að vera á hverja 100 fermetra af verslunar- og þjónustuhúsnæði, en gera má ráð fyrir að stór hluti af neðstu hæð verði notaður undir verslunarhúsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert