Vísa innkaupabanni til umboðsmanns

Frá aukafundi borgarstjórnar í gær.
Frá aukafundi borgarstjórnar í gær. mbl.is/Styrmir Kári

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hyggst á fundi borgarráðs á morgun óska eftir öllum gögnum tengdum undirbúningi innkaupabanns borgarinnar á vörur frá Ísrael. Hann telur ljóst að undirbúningsferlinu hafi verið verulega ábótavant og hyggst senda umboðsmanni Alþingis erindi um málið í kjölfarið.

„Þetta mál hefur ekki hlotið þá meðferð sem mál af þessu tagi eiga að fá. Auk þess hafa margir lögfræðingar bent á að innkaupabannið sé ekki í samræmi við lög um opinber innkaup og ýmsa milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Það verður líka að fara yfir þann þátt málsins,“ segir Júlíus.

Hann segir með ólíkindum að málið hafi verið í meðferð innan meirihlutans í borgarstjórn og hjá innkaupadeild borgarinnar í um ár, eins og Björk Vilhelmsdóttir hélt fram í viðtali á Hringbrautinni, án þess að aðrir en pólitískir fulltrúar meirihlutans hafi vitað af því. 

Júlíus Vífill segir þau vanhöld málsins sem hann telur helst varða umboðsmann Alþingis vera lögmæti þess að bera fram tillögu af þessu tagi, sérstaklega án þess að það liggi fyrir álit borgarlögmanns og innkaupadeildar um áhrif tillögunnar. Þá hafi skort samráð við m.a. utanríkisráðuneytið um það hvaða áhrif slík tillaga hefði á hagsmuni landsins. „Það eru ýmis svona mál sem varða vandaða stjórnsýslu sem er algjörlega ábótavant í þessu ferli og mörg íslensk fyrirtæki sem hafa orðið fyrir skaða vegna málsins,“ segir Júlíus og bætir við að í kjölfar málsins hafi margir bent á það að borgarstjóri skyldi íhuga stöðu sína og ætti jafnvel að segja af sér.

Júlíus Vífill telur fullt tilefni til þess að umboðsmaður taki upp málið af eigin frumkvæði. Fram kom þó í máli Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, á fundi skipulags- og eftirlitsnefndar nýverið að embættinu sé verulega þröngur stakkur sniðinn hvað slík mál varðar og þurfi auknar fjárheimildir frá Alþingi til þess að geta sinnt málum að eigin frumkvæði.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert