Vísar ásökununum á bug

Bergvin Oddsson.
Bergvin Oddsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bergvin Oddsson, formaður Blindrafélagsins, hafnar alfarið þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar af stjórn félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Bergvin birti á Facebook-síðu sinni rétt í þessu. Hann ítrekar að hann sé enn formaður félagsins.

Fréttatilkynning Bergvins í heild:

Í ljósi bókunar stjórnar Blindrafélagsins á stjórnarfundi félagsins þann 22. september sl., um trúnaðarbrest á milli hennar og mín hafna ég alfarið þeim ásökunum sem á mig eru bornar að ég hafi vélað 21 árs gamlan félagsmann og varastjórnarmann Blindrafélagsins til að leggja fram fé í fasteignafélag sem tengist mér. Hið rétta er að hann er hluthafi í félaginu og lagði fram eigendalán til félagsins síðasta vor. Í síðustu viku óskaði hann eftir að ganga úr félaginu og fá endurgreitt það sem hann lagði til þess. Samþykkti ég það og var um samið að endurgreiðslan kr. 1.626.000.- yrði greidd þegar eign félagsins yrði seld.
Ég tel mig ekki á nokkurn hátt hafa beitt eða sýnt óheiðarleika í þessum viðskiptum og þaðan af síður gerst brotlegur í starfi sem formaður Blindrafélagsins enda stofnun og rekstur þessa fasteignafélags Blindrafélaginu alls óviðkomandi.
Í fyrravor var ég kjörinn formaður Blindrafélagsins með einu atkvæði og síðan þá hafa verið átök innan stjórnar Blindrafélagsins og valdabarátta.
Ég vil taka það fram að ég er enn formaður Blindrafélagsins þrátt fyrir ákvörðun stjórnar félagsins og mun gæta hagsmuna félagsmanna og félagsins eins og ég hef alla tíð gert.

Reykjavík 23. september 2015.

Bergvin Oddsson

Frétt mbl.is: Vantraust á formann Blindrafélagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert