Dæmdur í þriggja ára fangelsi

Sigurður Ingi Þórðarson er betur þekktur sem Siggi hakkari.
Sigurður Ingi Þórðarson er betur þekktur sem Siggi hakkari. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Þórðarson, sem er þekktur sem Siggi hakkari, var í vikunni dæmdur í þriggja ára fangelsi og til að greiða fórnarlömbum sínum 8,6 milljónir í miskakostnað og  rúmar sex milljónir króna í sakarkostnað. Sig­urður  játaði við fyr­ir­töku í Héraðsdómi Reykja­ness í ágúst að hafa brotið kyn­ferðis­lega gegn níu pilt­um.  Dómur féll í málinu síðastliðinn miðvikudag.

Lofaði að hakka sig inn í tölvukerfi skóla og breyta einkunnum

 Sigurður var eins og áður sagði ákærður fyrir brot gegn níu drengjum. Í ákæru kemur fram að meðal annars hafi hann brotið kynferðislega gegn einum piltanna alls 40 sinnum á tveggja ára tímabili er drengurinn var 15-17 ára. Hét Sigurður piltinum peningagreiðslum, að láta honum í té símtæki, tölvur og bifreiðar, og gera samning þar um, auk þess sem hann taldi piltinum trú um að hann gæti með tölvukunnáttu sinni lagfært skráða punkta í skóla og útvegað honum próf. Sigurður nálgaðist piltinn í gegnum samskipti á netinu, einkum Facebook, þar sem hann bauð þeim greiðslur af ýmsu tagi fyrir munn- og endaþarmsmök. Flestir voru þeir á aldrinum 15 og 16 ára þegar brotin voru framin.

Greiðslurnar áttu meðal annars að felast í utanlandsferðum, tölvum, símum, peningum, rekstur á símum og netttengingum. Sem og að bjóðast til þess að hakka sig inn í tölvukerfi í skólum þeirra, breyta mætingarskráningu og einkunnum. 

Sigurður braut gegn einum drengjanna alls fimmtán sinnum. Þau brot voru framin á rúmum tveimur mánuðum þegar drengurinn var sextán ára gamall. Taldi Sigurður drengnum trú um að hann fengi háar peningagreiðslur og bifreiðar að láni. Eins að greiða fyrir rekstur á gsm síma, nettenginu og sjónvarpsáskriftir. Jafnframt að útvega honum erlendan bankareikning ofl. gegn kynmökum. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að málið hafi verið þingfest 20. ágúst 2015 og var Sigurði þá veittur frestur til þess að ráðfæra sig við verjanda sinn áður en hann léti uppi afstöðu sína til sakargifta. Við fyrirtöku málsins 28. sama mánaðar upplýsti Sigurður að hann hefði fyrir þinghaldið kynnt sér gögn málsins ásamt verjanda sínum, þ.m.t. alla liði ákærunnar, sem þeir hefðu farið yfir hvern fyrir sig. Aðspurður af dómara játaði hann því næst sök samkvæmt öllum liðum ákæru. Jafnframt var samið um miskabótakröfur brotaþola í málinu fyrir dómtöku þess. 

Samkvæmt sakavottorði var Sigurður dæmdur í átta mánaða fangelsi í Hæstaréttir í febrúar 2014.  Eins gekkst hann undir tvær sektargerðir lögreglustjóra 13. mars 2014 vegna þjófnaðar­brota. Þá var hann 22. desember 2014 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir skjalafals, fjárdrátt, fjársvik og minniháttar eignaspjöll.

Brot þau sem Sigurður er sakfelldur fyrir nú framdi hann fyrir uppkvaðningu fyrrgreindra dóma og áður en hann gekkst undir sektargerðirnar tvær hjá lögreglustjóra. Því var refsing hans þyngd nú. 

Sigurður var í fyrradag sakfelldur fyrir tugi brota gegn ákvæði almennra hegningarlaga um að hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngir en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

 Beindust þau brot gegn fimm brotaþolum og voru þau sérstaklega alvarleg gegn tveimur brotaþolanna, en Sigurður braut 40 sinnum gegn öðrum þeirra og 15 sinnum gegn hinum. Þá hann jafnframt sakfelldur fyrir að hafa keypt vændi af fjórum brotaþolanna. Auk fleiri brota gegn almennum hegningarlögum.

Í niðurstöðu dómara kemur fram að brot Sigurðar hafi verið umfangsmikil og brotavilji hans einbeittur. Var það virt honum til refsiþyngingar. Honum til málsbóta var hins vegar virt skýlaus játning hans og það að hann samþykkti að greiða öllum brotaþolum miskabætur. Eins hafði ungur aldur Sigurðar áhrif til refsilækkunar en hann er á 23. aldursári.

Dómurinn í heild

mbl.is