Er Erlendur á lífi?

„Hvað verður um Erlend?“ spurði sjónvarpskonan Yukiko Duke, þegar hún ræddi við spennusagnahöfundinn Arnald Indriðason á bókamessunni í Gautaborg í dag, en eins og margir vita hvarf hann inn í snjóbyl í síðustu bók Arnaldar.

Fullt var í salnum þegar Arnaldur svaraði spurningu Duke, en ellefu bóka hans hafa verið þýddar á sænsku af Ylvu Hellerud og er greinilegt að Erlendur lögreglumaður á hug og hjörtu sænskra lesenda, segir í tilkynningu frá Miðstöð íslenskra bókmennta.

Arnaldur sagðist ekki hafa hugmynd um örlög söguhetju sinnar, sambúðin við hann væri honum stundum erfið. Hann gæti e.t.v. leyst málin fyrir aðra, og hefði skilning á áföllum og sársauka annarra, en væri fyrirmunað að leysa sín eigin vandamál og lifði því áfram í einangrun; einmanna og ástlaus.

„En verða þá ekki fleiri bækur skrifaðar um Erlend?“ spurði Duke.

„Það kemur í ljós, ég veit ekki enn hvort hann er á lífi, það eina sem ég veit er að það tekur langan tíma að deyja úr kulda.“

„Arnaldur sagði að sögur hans væru drifnar áfram og mótaðar af persónu Erlends en ekki af morðum, eltingarleikjum og hasar. Glæpurinn í sögum hans væri ekki aðalatriðið heldur miklu fremur aðdragandi hans og það sem fengi venjulegt fólk til að fremja morð oftast við aðstæður sem engin leið er að komast út úr. Þá talaði hann einnig um sögusvið bóka sinna, um íslenskt samfélag sem gengið hefði í gegnum miklar umbreytingar og Reykjavík sem hefur frá lokum seinna stríðs breyst úr smábæ í nútímaborg með öllu sem henni tilheyrir. Hann minntist einnig á hernám Íslands í seinna stríði og sagði frá því að næsta bók hans gerist á árunum um frá 1940-1945,“ segir í tilkynningu Miðstöðvarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina