Hætti að drekka og byrjaði að mála

Jakob við verkin sín.
Jakob við verkin sín. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var gjaldþrota og eins týndur í lífinu og hægt var. Ég vaknaði einn laugardagsmorguninn á rokkhátíð og hugsaði með mér að þetta vildi ég ekki gera í lífinu,“ segir Jakob Veigar Sigurðsson myndlistarmaður þegar hann lýsir því hvað varð til þess að hann ákvað að setja tappann í flöskuna og leyfa listagyðjunni að leiða sig áfram í lífinu.

Í dag eru liðin fimm ár frá deginum örlagaríka og Jakob á mjög góðum stað í lífinu, að eigin sögn. Hann er að klára BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og að því loknu tekur við framhaldsnám í Vín í Austurríki þar sem hann hefur haft annan fótinn síðasta árið.

Jakob er byggingartæknifræðingur að mennt. Áður en hann hóf myndlistarnámið starfaði hann sem slíkur hjá Ístaki á fámennum stað í Norður-Noregi. „Eftir að ég hætti að drekka fann ég að ég þurfti að finna þessari orku farveg. Ég fór að mála hreinlega til að halda sönsum,“ segir Jakob. Hann málaði og samdi einnig tónlist, smáskífan Darkness var afrakstur þeirrar vinnu og kom út árið 2011. Öll umslögin voru handmáluð af Jakobi og tölusett.

Myndlistin hefur alltaf blundað í Jakobi en hann segist hafa lokað alveg á þennan hæfileika framan af. „Þegar ég sat fundi í Noregi var ég skammaður fyrir að krota á allar fundargerðir,“ segir Jakob og brosir.

Þrátt fyrir að hafa vent kvæði sínu í kross hefur Jakob ekki sagt alfarið skilið við bygginga- og verktakabransann. Hann heldur sér við og hjálpar verktökum hér heima „þegar hann verður svangur“, eins og hann orðar það. „Að hætta á góðum launum og fara yfir í myndlist, sem mörgum finnst algjörlega „worthless“, fannst mörgum stórskrýtið. En svo þegar fólk sér að ég blómstra og líður vel hringja ótrúlegustu menn í mig og spyrja mig út í þetta til að fá „bakköp“ til að taka u-beygju í lífinu eins og ég. Mér þykir ofsalega vænt um að geta hjálpað. En það hafa mjög margir draum um að vinna við eitthvað annað en þeir eru að gera,“ segir Jakob.

Fór í fýlu og fór til Kýpur

Þegar Jakob var orðinn viss í sinni sök um hvert hann stefndi í lífinu á nýjan leik sótti hann um í LHÍ en fékk ekki inngöngu. „Þá fór ég í fýlu og fór til Kýpur og komst í lítinn hippaháskóla. Þar var ég einn vetur. Það var algjörlega frábært. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa ekki komist inn í Listaháskólann því annars hefði ég misst af þessu.“

Eftir þennan vetur komst Jakob inn í LHÍ í annarri tilraun. Þegar leið á námið vildi hann ólmur komast í skiptinám og Austurríki varð fyrir tilviljun fyrir valinu. „Ég sagði í gríni að ég vildi komast inn í skólann sem hafnaði Hitler á sínum tíma,“ segir Jakob og sú varð raunin. Þetta skiptinám er oftast í eina önn en honum bauðst að vera lengur og sótti hann því um undanþágu til þess. Þar kynntist hann vel Kirsi Mikkola, sem er prófessor við skólann og virt finnsk myndlistarkona. „Við urðum góðir vinir og hún tók mig alveg í gegn og breytti mér mjög mikið. Hún vildi endilega að ég kæmi aftur og yrði hjá sér,“ segir Jakob. Á næsta ári heldur hann til Austurríkis og vinnur undir leiðsögn Mikkola.

Sáttur við lífið

Jakob, sem er fæddur og uppalinn í Hveragerði, segir bæjarbúa listhneigða upp til hópa. Þeir standa líka þétt við bakið á sínu fólki en Hljómlistarfélagið í Hveragerði, sem er félagsskapur ungra manna, styrkti Jakob til náms þegar hann var í skiptinámi í Vín. Hann er einstaklega þakklátur fyrir þann stuðning, sem hann segir lýsa samheldni bæjarbúa vel.

„Ég get ekki verið sáttari. Ég er á besta stað í heiminum í dag,“ segir Jakob, sem er greinilega á réttri hillu í lífinu.

Í sumar hélt Jakob sýningu á verkum sínum í gróðurhúsi …
Í sumar hélt Jakob sýningu á verkum sínum í gróðurhúsi í Hveragerði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »