Finnar heimsmeistarar í skyrsölu

Eigendur Skyr Finland taka á móti bikar úr hendi Ara …
Eigendur Skyr Finland taka á móti bikar úr hendi Ara Edwald, forstjóra MS. Stofnendurnir, þeir Mika Leppäjärvi og Miikka Eskola, eru lengst til vinstri. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Selt er tvöfalt meira af skyri í Finnlandi en sjálfu upprunalandinu, Íslandi. Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, útnefndi umboðsmenn skyrsins í Finnlandi heimsmeistara í skyrsölu á skyrhátíð sem efnt var til í Helsinki um helgina. Hann tók jafnframt fram að Finnar ættu enn langt í land með að ná heimsmetinu í skyrneyslu miðað við höfðatölu. Þar hefðu Íslendingar vinninginn.

Skyr Finland oy og frumkvöðlarnir sem standa að baki því og starfsmenn hafa góða ástæðu til að gleðjast. Þeir halda upp á þau tímamót að fimm ár eru liðin frá því þeir hófu að selja skyr frá Íslandi. Fyrsta árið seldu þeir tæp 150 tonn af skyri og á síðasta ári var salan komin upp í um 3000 tonn. Í ár má búast við að salan verði hátt í 5.500 tonn. Salan í Finnlandi sprengdi strax á öðru ári innflutningskvóta Evrópusambandsins og nú er megnið af því framleitt í Danmörku með aðferðum MS.

Ísland í Helsinki

Af þessu tilefni efndu þeir til skyrhátíðarinnar í Helsinki. Leigðu litla eyju, Lonna, og gáfu henni nafnið „Ísland“. Út um alla borgina voru skilti sem sögðu hvað væri lengi verið að ganga eða sigla til „Íslands“. Þeir buðu blaðamönnum og fleiri gestum í veislu þar sem boðið var upp á íslenskar veitingar að hætti Sigga Hall og skyráhugafólk gat komið til að smakka skyrafurðir og taka þátt í Íslandshátíð. Íslenskar hljómsveitir og plötusnúðar skemmtu fólki, meðal annars Retro Stefson, og margir vildu fá að mynda sig með Hafþóri Júlíusi Björnssyni, leikara og kraftajötni. Eyjan rúmaði fimm hundruð manns í einu og var áætlað að um þúsund manns hefðu komið þangað hvort kvöld.

„Við höfum haft þessa hugmynd í þrjú eða fjögur ár en þetta er dýrt og við höfðum ekki efni á að hrinda henni í framkvæmd fyrr en núna,“ segir Mika Leppäjärvi, stofnandi og aðaleigandi Skyr Finnland oy ásamt Miikka Eskola. Þeir félagar eru ánægðir með veisluna og vissu í gær ekki annað en fólkið væri ánægt. Geta þess að erfitt sé að fá jafnmarga blaðamenn til að sýna sig á viðburði og stoppa þar heilt kvöld. Þeir vonast síðan til að fá umfjöllun í finnskum fjölmiðlum næstu daga.

Kynning á landinu

Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi, segir að kynning á skyri sé jafnframt mikil kynning á Íslandi. Finnsku umboðsmennirnir tengi skyrið við hreysti og heilbrigða lífshætti og geri mikið úr upprunanum. Í ávarpi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem sýnt var á skjá í veislunni, minnti hann á að Finnar og Íslendingar líktust á ýmsan hátt, töluðu til dæmis tungumál sem enginn annar skildi. Nú hefði skyrið bæst við þessi tengsl.

„Ég sá þetta á Facebook,“ segir Heimir Gunnarsson, fimleikaþjálfari í Finnlandi, sem mætti á hátíðina með finnskri konu sinni. „Skyr er orðið ótrúlega vinsælt hér, þeim finnst það betra en jógúrt. Þegar fimleikaþjálfararnir taka sér hlé draga þeir alltaf upp skyrdósir til að næra sig,“ segir Heimir.

Gestir skyrhátíðarinnar fylgjast með tónleikum Retro Stefson.
Gestir skyrhátíðarinnar fylgjast með tónleikum Retro Stefson. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Íslenska skyrið hefur gott hillupláss í verslunum. Skyr sem Arla …
Íslenska skyrið hefur gott hillupláss í verslunum. Skyr sem Arla er að markaðssetja er sett við hliðina en hefur enn engu flugi náð. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert