Hlaupið á leið undan jöklinum

Eystri Skaftárketill. Mynd úr safni.
Eystri Skaftárketill. Mynd úr safni. Ljósmynd/Jón Grétar Sigurðsson

Hlaupið úr eystri Skaftárkatli er ekki komið undan jöklinum. Búast má við að rennsli fari í 1.300 til 1.400 rúmmetra á sekúndu þegar það nær að fyrstu mælistöð Veðurstofu Íslands.

Ketillinn hefur verið fullur í nokkurn tíma en ekki hefur hlaupið úr honum í fimm ár, eða frá því í júní árið 2010.

Greint var frá því á Facebook-síðu Veðurstofu Íslands rétt eftir klukkan tíu í morgun að hlaup væri hafið úr eystri Skaftárkatli. Sigið herðir á sér og er hlaupið á leið undan jöklinum. Verið að funda vegna málsins hjá Veðurstofu Íslands. Von er á tilkynningu frá Veðurstofu Íslands og Almannavörnum vegna málsins þegar líður á daginn. 

Frétt mbl.is: Skaftárhlaup hafið

Þetta er í fyrsta skipti sem sérfræðingar Veðurstofu Íslands geta greint svo snemma frá hlaupi í katlinum er búið er að koma fyrir GPS-stöð á íshellunni.

Rennsli fer í allt að 1.400 rúmmetra

„Það má búast við því að þetta verði dæmigert hlaup úr eystri katlinum. Hann hefur verið fullur dálítið lengi, það hefur venjulega hlaupið á tveggja ára fresti en það hljóp síðast í júní 2010,“ segir Snorri Zóphóníasson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hvað er dæmigert hlaup úr eystri Skaftárkatli?

„Það má búast við að rennsli fari í svona 1.300 – 1.400 rúmmetra á sekúndu eftir að við sjáum það á fyrstu mælistöð en það er ekki komið þangað. Þá líða svona 48 klukkustundir þar til það er komið í hámark niður við þjóðveg,“ segir Snorri í samtali við mbl.is.

Áfram heldur að flæða úr farveginum út á hraunin í kring í marga daga þegar þegar rennsli fer að minnka.

Flætt getur yfir vegi

Snorri gerir ekki ráð fyrir að brýr á svæðinu muni bregðast en flætt getur yfir vegi, þá helst við Hólaskjól og nærri Hvammi í Skaftártungu. Aðrir vegir á svæðinu eru einkavegir.

„Við höfum aldrei getað séð þetta svona áður. Það er komin GPS-stöð á íshelluna á katlinum. Hún sýnir lækkun, ákveðna lækkun. Hlaupið er á leið einhversstaðar undir jöklinum. Það eru 40 kílómetrar frá katlinum út að jökuljaðrinum og síðan eru 20 kílómetrar að fyrstu rennslismælisstöð,“ útskýrir Snorri en hlaupið hefur ekki enn sést á yfirborði.

Hlaupin úr eystri katlinum eru yfirleitt stærri en úr vestari katlinum. Þeim getur þó fylgst rennsli í lengri tíma. „Þegar vöxturinn kemur fram á fyrsta mæli áttar maður sig betur á því í hvað stefnir,“ segir Snorri.

Hér má sjá svæðið sem um ræðir.
Hér má sjá svæðið sem um ræðir. mbl/Kristinn
mbl.is