Sjö matvöruverslanir sektaðar

Í flestum verslunum voru gerðar athugasemdir við fjölda ómerktra eða …
Í flestum verslunum voru gerðar athugasemdir við fjölda ómerktra eða vitlaust verðmerktra vara en einnig höfðu athugasemdir verið gerðar við að einingaverð vantaði í nokkrum verslunum. mbl.is/Árni Sæberg

Neytendastofa hefur sektað sjö rekstraraðila matvöruverslana fyrir að fara ekki að fyrirmælum stofnunarinnar um að bæta verðmerkingar. Voru verslanirnar sektaðar um samtals 6.050.000 kr.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu

Þar segir ennfremur, að í verðmerkingareftirliti Neytendastofu í matvöruverslunum sé kannað hvort vörur séu verðmerktar bæði með söluverði og með einingarverði auk þess sem farið sé yfir hvort verð á hillu sé rétt. Þá sé skoðað sérstaklega hvernig verðmerkingum með notkun verðskanna er háttað.

„Neytendastofa gerði athugasemdir við verðmerkingar í flestum þeirra matvöruverslana sem skoðaðar voru og þegar skoðuninni var fylgt eftir höfðu 19 verslanir, í eigu sjö fyrirtækja, ekki enn gert fullnægjandi umbætur á verðmerkingum. Í flestum verslunum voru gerðar athugasemdir við fjölda ómerktra eða vitlaust verðmerktra vara en einnig höfðu athugasemdir verið gerðar við að einingaverð vantaði í nokkrum verslunum.

Skylda til að verðmerkja söluvörur með söluverði og einingarverði er mjög skýr og því hefur Neytendastofa nú gripið til þess að leggja stjórnvaldssekt á þau sex fyrirtæki sem ekki höfðu lagað verðmerkingar sínar. Það eru fyrirtækin 10-11, Bónus, Iceland, Krónan, Nettó, Plúsmarkaðurinn, Samkaup og Vietnam Market,“ segir Neytendastofa í tilkynningu.

Ákvarðanirnar má finna hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert