Mögulega stærsta Skaftárhlaupið

Frá Skaftárhlaupi. Myndin er úr safni.
Frá Skaftárhlaupi. Myndin er úr safni. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skaftárhlaupið gæti orðið mjög stórt, jafnvel það stærsta hingað til. Hlaupsins er farið að gæta á mælum Veðurstofu Íslands í Skaftárdal og er vöxtur hlaupsins sá hraðasti sem mælst hefur í hlaupum hingað til.

Að sögn Snorra Zóphóníasarsonar, jarðfræðings hjá Veðurstofu Íslands, fór hlaupsins að gæta  efst í byggð, í Skaftárdal, um tíuleytið í morgun og ættu íbúar þar að verða varir við töluverða breytingu á Skaftá á næstu klukkustund.

Rennsli er enn ekki mikið í dalnum en mun aukast verulega á næstu klukkustundum.

Frétt mbl.is: Rennsli Skaftár nú 927,9 m³/​s

„Við vorum að reikna grafið [af vextinum – innskot blaðamanns] ofan í önnur hlaup og er þetta hraðasti vöxtur sem við höfum séð á Skaftárhlaupi,“ segir Snorri og bætir aðspurður við að það sé líklega vegna þess að fimm ár eru liðin frá síðasta hlaupi.

Það þykir nokkuð langur tími en að jafnaði hefur hlaupið úr eystri katlinum á tveggja ára fresti. „Það lítur út fyri rað þetta geti orðið mjög stórt,“ segir Snorri, jafnvel stærsta hlaupið hingað til.

Rennsli árinnar mun aukast töluvert áður en það dregur úr á ný. „Ég tel helst að samgöngur muni teppast vegna þess að vatn flæðir yfir vegi,“ segir Snorri en minni líkur eru á að brýr muni bresta vegna hlaupsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert