„Ríkið á ekki að selja nærbuxur“

Frá fundinum í Reykjanesbæ.
Frá fundinum í Reykjanesbæ. mbl.is/Ísak

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkið eigi að einbeita sér að því að sinna löggæslu og heilbrigðismálum en ekki að standa í nærbuxnasölu á Keflavíkurflugvelli. Þetta kom fram í máli hans á fundi Sjálfstæðisfélagsins í Reykjanesbæ í kvöld en á fundinum var rædd aðkoma einkaaðila að rekstri Keflavíkurflugvallar.

Á fundinum sagði Vilhjálmur að miklir hagsmunir væru í húfi fyrir íbúa Reykjanesbæjar og að gæta þurfi þess að íbúar verði hafðir með í ráðum verði hugmyndir um aukna aðkomu einkaaðila að rekstri flugvallarins að veruleika.

Á fundinum var Vilhjálmur spurður hvort aukinn einkarekstur hefði í för með sér færri störf á flugvellinum, sem hann svaraði neitandi.

„Það þarf að ráðast í mikla uppbyggingu á flugvellinum á næstu árum og það verður meiri eftirspurn eftir vinnuafli þar. Þannig ég sé miklu frekar fram á að störfum fjölgi og laun hækki ef það verður ráðist í þetta verkefni,“ segir Vilhjálmur. 

Miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á komandi árum

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands, flutti erindi á fundinum en Viðskiptaráð hefur kallað eftir því að ákveðnir þættir í rekstri flugvallarins verði færðir í hendur einkaaðila. Vitnaði hann í erindi sínu í Ingimund Sigurpálsson, stjórnarformann ISAVIA, úr árskýrslu ISAVIA.

„Isavia gegnir þýðingarmiklu hlutverki í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Félagið þarf að ráðast í miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á komandi árum til þess að mæta auknum fjölda ferðamanna. Á sama tíma eru uppi væntingar um að félagið greiði háar arðgreiðslur. Eigi hvort tveggja að fara saman þarf fleiri aðila til þess að standa undir fyrirhuguðum framkvæmdum,“ hafði Hreggviður eftir Ingimundi.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
mbl.is