Sektin lækkuð um tæpar 600 milljónir króna

Norvik hf., móðurfélag BYKO, hefur verið gert að greiða 65 …
Norvik hf., móðurfélag BYKO, hefur verið gert að greiða 65 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota gegn samkeppnislögum.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að BYKO hafi brotið gegn samkeppnislögum með samráði við gömlu Húsasmiðjuna.

Í úrskurðinum segir að BYKO hafi brotið gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga, sem kveður á um að allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær séu bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða henni raskað séu bannaðar.

Hafi þannig skipulögð og kerfisbundin upplýsingaskipti um verð leitt til ástands sem þróaðist í þá átt að gera báðum aðilum kleift að hækka verð sín. „Hin tíðu samskipti leiddu einnig til þess að leitað var eftir hreinræktuðu verðsamráði,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Áfrýjunarnefndin taldi að brot BYKO hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar en Samkeppniseftirlitið lagði 650 milljóna króna stjórnvaldssekt á Norvik hf., móðurfélag BYKO.

Frétt mbl.is: BYKO gert að greiða 650 milljónir

Lækkaði áfrýjunarnefndin sektina úr um tæplega 600 milljónir króna, eða í 65 milljónir króna. Þá taldi nefndin ósannað að brotið hefði verið gegn EES-samningum.

Samkeppniseftirlitið fór offari í málinu frá upphafi

Í yfirlýsingu frá BYKO segir að niðurstaða áfrýjunarnefndar feli í sér viðurkenningu á því að Samkeppniseftirlitið hafi farið offari í málinu allt frá byrjun, og hyggst félagið taka ákvörðun um með hvaða hætti verður brugðist við á næstu dögum.

Segir í yfirlýsingunni að Samkeppniseftirlitið hafi opnað sérstaka upplýsingasíðu um „ólögmætt samráð á byggingavörumarkaði“ um leið og tilkynnt var um sektarákvörðunina hinn 15. maí sl.

„Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var að mati forsvarsmanna BYKO í beinni andstöðu við úrskurð fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness á síðastliðnu vori þar sem 11 af 12 sakborningum í sama máli voru sýknaðir. Dómurinn taldi gögn málsins sýna það með óyggjandi hætti að verðsamkeppni á byggingavörumarkaðnum væri mikil,” segir í yfirlýsingunni.

Telur BYKO vandséð hvernig hægt var að komast að svo ólíkri niðurstöðu í tveimur málum sem fjalla um sömu málsatvik, þ.e. annars vegar í niðurstöðu fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness og hins vegar í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Að mati BYKO tekur Áfrýjunarnefnd samkeppnismála undir með dómstólnum um að óeðlilega hátt hafi verið reitt til höggs.

„BYKO hefur frá upphafi haldið fram sakleysi sínu gagnvart hvers kyns ásökunum um ólögmætt verðsamráð. Enda þótt Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komist að þeirri niðurstöðu að sektarfjárhæðin skuli einungis vera 10% af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er ljóst að nefndin hefur að engu framangreinda niðurstöðu héraðsdóms um að ekki hafi verið um verðsamráð að ræða. BYKO lítur á úrskurð áfrýjunarnefndar sem áfangasigur og  telur sig vera saklaust af hvers kyns ólögmætu verðsamráði. BYKO mun leita allra leiða til þess að fá þá einörðu afstöðu sína staðfesta,” segir í yfirlýsingunni.

Byko og Húsasmiðjan.
Byko og Húsasmiðjan. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert