Vilja selja eignirnar til sveitarfélaga

Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúðalánasjóður hefur áhuga á að selja sveitarfélögum fasteignir sem sjóðurinn á í viðkomandi sveitarfélögum. Stór hluti íbúðanna er leigður út, gjarnan til þeirra sem áður bjuggu í eignunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Þar kemur fram að skortur sé á félagslegu og almennu leiguhúsnæði á einhverjum stöðum. Sumar af þeim fasteignum sem lent hafa hjá Íbúðalánasjóði eftir hrun þarfnast töluverðra endurbóta og bíður það nýrra eigenda að ráðast í þær. 

„Í þeim tilfellum sem fjárhagur sveitarfélaganna leyfir ekki fjárfestingu af þessu tagi gætu viðræðurnar skilað hugmyndum um aðrar leiðir til að koma nýtingu og eignarhaldi fasteignanna sem fyrst í framtíðarhorf,“ segir í tilkynningu.

Ágúst Kr. Björnsson, forstöðumaður  fasteigna hjá Íbúðalánasjóði, segir í fréttatilkynningunni að rætt hafi verið við forsvarsmenn sveitarfélaga í síma og bréf send og sá möguleiki ræddur að sveitarfélögin kaupi einhvern hluta fasteigna Íbúðalánasjóðs á viðkomandi stað.

„Í mörgum þessara sveitarfélaga er umtalsverð þörf á að auka framboð húsnæðis og ýmis sveitarfélög hafa skoðað möguleikann á stofnun leigufélaga. Ef Íbúðalánasjóður getur með einhverjum hætti komið að þessu verkefni þá væri það í góðu samræmi við markmið sjóðsins um að stuðla að framboði af húsnæði á viðráðanlegu verði. Markmið okkar er að losa um mikinn hluta  fasteigna sjóðsins á þessu og næsta ári. Íbúðlánasjóður hefur áhuga á að taka höndum saman með sveitafélögunum í landinu og vinna að farsælli lausn þessara mála og stuðla þannig að húsnæðisöryggi um allt land,“ er haft eftir Ágústi í fréttatilkynningu.

mbl.is