Hrærð og íhugar málið

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er auðvitað ljóst að maður þarf að íhuga þetta,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is spurð hvort hún hafi í hyggju að bjóða sig fram til varaformanns flokksins á landsfundi hans 23.-25. október. 

Samþykkt var á almennum félagsfundi í Sjálfstæðisfélaginu Kára í Rangárþingi eystra í gær áskorun á Unni að gefa kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum. Vísað er þar meðal annars til mikilvægis þess að forysta flokksins hefði breiða skírskotun til kjósenda, bæði í dreifbýli og þéttbýli, en Unnur er þingmaður Suðurkjördæmis.

„Mér þykir að sjálfsögðu afskaplega vænt um þessa áskorun og eiginlega bara hálf hrærð yfir henni,“ segir Unnur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er núverandi varaformaður en hún tilkynnti í gær að hún ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri. Einnig hefur verið skorað að undanförnu á Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að gefa kost á sér sem varaformaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert