„Við erum kolbrjálaðir og til í allt“

Mikill fjöldi var saman kominn við Stjórnarráðið.
Mikill fjöldi var saman kominn við Stjórnarráðið. mbl.is/Styrmir Kári

„Við vorum með mjög mikið eftirlit við Stjórnarráðið, fréttum að það væri eitthvað vandræðafólk þar en það var nú bara gott fólk, bara ríkisstjórnin,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Jóhann Davíðsson þegar lögreglumenn af öllu höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Selfossi fjölmenntu fyrir utan Stjórnarráðið í morgun.

Eftir fundinn settust lögreglumenn inn á Dunkin' Donuts, sem töluðu um að það væri hæfilega ódýrt fyrir þá, sérstaklega ef þeir fengju þá frítt.

mbl.is/Styrmir Kári

Meðal þeirra sem við Stjórnarráðið stóðu voru lögreglumenn sem létu ýmislegt yfir sig ganga þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst - þeirra á meðal lögreglumaður sem fékk gangstéttarhellu í höfuðið.

Í dag var hins vegar annað uppi í teningnum, því frekar en að snúa baki í stjórnarráðshúsið og vernda það snéru lögreglumenn nú með táknrænum hætti að húsinu. Ástæðan er sú að lögreglumenn krefjast hærri launa en telja sig engum vopnum geta beitt í kjarabaráttu sinni.

Smeygðu sér með veggjum

Lögreglumennirnir hittust fyrir utan Stjórnarráðið klukkan níu í morgun, en klukkan hálftíu hófst ríkisstjórnarfundur þar sem ráðherrar gengu ýmist upp tröppurnar að húsinu frá Lækjargötu eða smeygðu sér meðfram veggjum - eitthvað sem fór ekki vel í lögreglumennina sem fannst sem þeir væru að forðast þá. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, var hins vegar einn þeirra ráðherra sem stoppaði og gaf sig á tal við Jóhann.

mbl.is/Styrmir Kári

„Já, hún var flott. Hún fær fimm stjörnur. Hún talaði við okkur. Við ætluðumst ekki til að það fólk sem var að mæta á ríkisstjórnarfund. Við vorum ekki að ætlast til að það fólk sem var að mæta á ríkisstjórnarfund færi að semja við okkur um kaup og kjör þarna á tröppunum,“ sagði Jóhann. „En það er kannski rétt að minna á að við erum mennsk og að í starfi okkar felst að halda uppi röð og reglu í ríkinu. Við erum í vandræðum að gera það vegna þess hvernig að okkur er búið og þess vegna þætti okkur mjög gott að geta komið því á framfæri og allt í lagi að ræða við okkur og hún gerði það, þó það hafi verið stutt og laggott,“ sagði Jóhann.

„Okkur fannst það ekki stórmannlegt“

„Aðrir fóru þarna án þess að tala við okkur og fjármálaráðherra sérstaklega. Hann læddist þarna með veggjum. Okkur fannst það ekki stórmannlegt. En ég náði þó að segja góðan daginn við hann og vona að hann eigi góðan dag og átti sig á því að hann þurfi að laga launin okkar og þá eru allir glaðir,“ sagði Jóhann.

Jóhann Davíðsson við dyr Stjórnarráðsins.
Jóhann Davíðsson við dyr Stjórnarráðsins. mbl.is/Styrmir Kári

Hann sagði stemninguna innan lögreglunnar aldrei verið með þeim hætti sem nú er. „Við erum kolbrjálaðir og við erum til í allt,“ sagði Jóhann. Aðrir lögreglumenn sem blaðamaður ræddi við voru sama sinnis og útilokuðu ekki þann möguleika að segja starfi sínu lausu verði engin breyting á þeirra kjörum. Það væri hins vegar ekki góður kostur að þeirra mati því felst unna þau starfi sínu þrátt fyrir allt. Aðrir nefndu að rétt væri að fara þá leið að kjör lögreglumanna væru til dæmis ákveðin af kjararáði eða öðrum slíkum aðila.

Mikill baráttuhugur í mönnum

„Það mun verða tómt vesen ef það verður ekkert gert af viti. Semjið við okkur, þetta er voðalega einfalt,“ sagði Jóhann. „Nú fara haustlægðirnar að koma, maður sér það að menn þurfa að klæða sig vel til að lenda ekki bara í flensukasti og veseni. Lögreglumenn eru úti í allskonar veðrum.“ Hann var ómyrkur í máli þegar hann sagði „svo lengi má deigt járn brýna að bíti. Og við erum deigt járn.“

Sigurður Ingi Jóhannsson á leið á ríkisstjórnarfund.
Sigurður Ingi Jóhannsson á leið á ríkisstjórnarfund. mbl.is/Styrmir Kári

Auk almennra lögreglumanna úr Reykjavík, Selfossi og Suðurnesjum voru yfirmenn, millistjórnendur, lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra, lögreglumenn embættis sérstaks saksóknara og kennarar og nemendur úr Lögregluskólanum á túninu fyrir framan Stjórnarráðið, á að giska rúmlega 100 lögreglumenn í það heila.

356 þúsund í laun eftir 22 ára starf

Ljóst var að mikill baráttuhugur samstaða er í mönnum, enda telja lögreglumenn sig hafa dregist afturúr í launum um langt skeið og þolmörkum hafi verið náð fyrir löngu.

„Það er svo gríðarlega langt síðan við fengum almennilega leiðréttingu á laununum okkar. Við erum búin að sitja aftarlega á merinni því við höfum náttúrlega engin vopn. Við erum eiginlega vopnlaus en við erum samt skjöldurinn,“ segir Bylgja Baldursdóttir, rannsóknarlögreglumaður í þeirri deild lögreglunnar sem rannsakar stærri mál á borð við kynferðisbrot og morðmál.

Ragnheiður Elín Árnadóttir á leið á ríkisstjórnarfund.
Ragnheiður Elín Árnadóttir á leið á ríkisstjórnarfund. mbl.is/Styrmir Kári

„Eftir 22 ára starf í lögreglunni er ég með 356 þúsund krónur í grunnlaun með aukalaunaflokki. Það eru mín laun og ég fæ ekki hærri laun því fyrir sjö árum síðan komst ég í hæsta launaflokk. Þetta er þakið, ég komst þangað fyrir löngu síðan,“ segir Bylgja.

Lögreglumenn gengu fylktu liði upp Bankastræti og Laugaveg að Dunkin' …
Lögreglumenn gengu fylktu liði upp Bankastræti og Laugaveg að Dunkin' Donuts. mbl.is/Styrmir Kári
#röðin fékk nýja merkingu.
#röðin fékk nýja merkingu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina