Ólöf Nordal gefur kost á sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hyggst gefa kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi flokksins 23.-25. október. Þetta tilkynnti Ólöf á blaðamannafundi á heimili sínu í dag.

Ólöf starfaði áður sem varaformaður flokksins á tímabilinu 2010-2013. Hún sat á Alþingi sem þingmaður Norðausturkjördæmis 2007-2009 og Reykjavíkurkjördæmis suður 2009-2013. Ólöf gaf ekki kost á sér í síðustu alþingiskosningum en tók við embætti innanríkisráðherra af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fráfarandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins, árið 2014.

Ólöf sagðist hafa íhugað stöðu sína frá því hún tók við embætti innanríkisráðherra. Hún segist nú hafa ákveðið að gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum sem og í embætti varaformanns flokksins.

Ólöf viðurkenndi að staða flokksins í könnunum mætti vera betri og á því þyrfti að taka. „Ég held að það standi stjórnmálunum fyrir þrifum að þau snúast mikið um sjálf sig," sagði Ólöf, „en ég tel það gríðarlega mikilvægt að kjörnir fulltrúar flokksins séu í góðu sambandi við fólkið."

Hún sagðist hafa rætt framboðið við ýmsa innan flokksins en að hún taki ákvörðun sína óháð stöðu fráfarandi varaformanns, Hönnu Birnu, en staða hennar hefur veikst mjög í kjölfar lekamálsins. Hún segist allt eins eiga von á mótframboði enda séu allir í framboði á landsfundi.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert