„Brúin hangir enn á sínum stað“

Brúarendinn stendur nú hálfur út í vatnið.
Brúarendinn stendur nú hálfur út í vatnið. Mynd/Sigurður Bogi

Rennsli í Skaftá við Sveinstind var í morgun aðeins um þriðjungur af því sem það var fyrir sólarhring síðan og í Eldvatni, þar sem stærstur hluti hlaupsins fer í gegn, var rennslið klukkan sex í morgun um helmingur þess sem það var sólarhring áður. Brúin yfir Eldvatn hefur haldið í nótt, en í gær fór að grafa gífurlega undan öðrum stöpli hennar þannig að lögregla lokaði á umferð yfir brúna.

Þrátt fyrir minnkandi rennsli er það enn þrisvar til fjórum sinnum meira en venjulega og því bætist enn vatn við út í Skaftárhraun við svokallaðar Dyngjur.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að allt hafi verið með kyrrum kjörum í nótt. Nú sé aftur á móti farið að rigna sem sé ekki það besta í stöðunni. „Brúin hangir enn á sínum stað,“ segir hann en bætir við að ekki sé vitað hvort hún muni halda í gegnum allt hlaupið. Þannig sé erfitt að sjá nákvæmlega hvernig rennslið sé við stöpulinn austan megin við brúna og ekki almennilega hægt að dæma um hvort mikil hætta sé á að hana muni taka af.

Hlaupið hefur skilað gífurlegu vatnsmagni í Skaftárhraun við Dyngjur, en þar safnast vatnið upp og myndar stórt lón. „Það er að flæða mjög mikið inn í það núna,“ segir Sveinn, en menn hafa haft áhyggjur af því að aukið vatnsmagn og hækkandi lónshæð valdi því að það flæði yfir hringveginn sem liggur þarna í gegn.

Segir Sveinn að áfram verði fylgst vel með svæðinu og lögreglumenn séu á ferðinni og verði það áfram í dag og á morgun. Segist hann eiga von á því að rennsli árinnar komist í dag eða morgun niður í eðlilegt horf, en að áfram þurfi að hafa sérstakar gætur á vatninu við Dyngjur.

Lögreglan hefur lokað veginum yfir brúna, en hætta er talin …
Lögreglan hefur lokað veginum yfir brúna, en hætta er talin á að hún fari vegna vatnavaxtanna. Mynd/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert