Vilja að stjórnvöld endurmeti afstöðu sína

Sigurður Bogi Sævarsson

Samtök sveitarfélaga á Austurlandi lýsa þungum áhyggjum af viðskiptabanni Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi SSA í gær. Flutningsmenn tillögunnar eru þeir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, og Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Stjórnvöld hafi hagsmuni sjávarbyggða í huga í öllum sínum gjörðum

„Aðalfundur SSA haldinn á Djúpavogi dagana 2. og 3. október 2015 lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem er að koma upp í kjölfar viðskiptabanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Því skorar aðalfundurinn á íslensk stjórnvöld að hafa hagsmuni sjávarbyggðanna og störf til sjós og lands í huga í öllum sínum gjörðum á næstunni. Íslenskur sjávarútvegur er ekki aðeins ein af grunnstoðum margra sveitarfélaga heldur einnig Íslands alls og þess fjöreggs verður að gæta vel. Skorar því aðalfundurinn á íslensk stjórnvöld að endurmeta afstöðu sína til málsins enda hagsmunir gríðarlegir, mörg störf í húfi fyrir íbúa landshlutans og fyrirliggjandi mikil tekjuskerðing fyrir viðkomandi sveitarfélög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert