Viðgerð eða ný brú yfir Eldvatn

Brúin yfir Eldvatn. Sjá má að grafið hefur mikið undan …
Brúin yfir Eldvatn. Sjá má að grafið hefur mikið undan stöplinum fjær á myndinni. Photo: Sigurður Bogi Sævarsson

Næstu dagar hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar á Suðurlandi munu að miklu leyti fara í að meta það tjón sem hefur verið á samgöngumannvirkjum og vegum í umdæminu við Skaftárhlaupið.

Meðal annars verður athugað hvort byggja þurfi nýja brú yfir Eldvatnið eða hvort hægt sé að gera við núverandi brú. Þá á eftir að athuga þær skemmdir sem urðu á Fjallabaksleið nyrðri við Hólaskjól.

Svanur Björnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að starfsfólk velti fyrir sér hverjar afleiðingar hlaupsins á brúna voru. Segir hann þó að ekkert sé hægt að gera fyrr en hlaupið gangi alveg niður og þá verði raunverulegt tjón metið.

Segir Svanur að mögulega verði bakkinn grjótvarinn og byggt verði á ný undir stöpulinn sem áin gróf undan. Aftur á móti þurfi að athuga hvort að brúin hafi eitthvað hreyfst og spenna komið í burðarvirkið. Hafi það gerst þurfi væntanlega að horfa til þess að byggja nýja brú að sögn Svans.

Tæplega eins kílómetra vegkafli við hálendismiðstöðina í Hólaskjóli sópaðist í burtu í flóðinu og því er ekki hægt að keyra  hringinn á Fjallabaksleið nyrðri.

Aðspurður hvort farið verði í lagfæringar á þeim kafla núna í haust eða beðið fram á vor segir Svanur að væntanlega verði reynt að gera þennan vegkafla akfæran fyrir veturinn. Það eigi þó enn eftir að meta skemmdirnar að fullu og verður það gert í vikunni. 

Á þessari mynd sést ágætlega að stöpullinn stendur út í …
Á þessari mynd sést ágætlega að stöpullinn stendur út í loftið. Photo: Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert