Nálgunarbann vegna ógnandi hegðunar og áreitni

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem úrskurðaði karlmann í nálgunarbann fyrir að áreita og ógna fyrrverandi eiginkonu sinni. Skal maðurinn sæta nálgunarbanni í sex mánuði og er lagt bann við að hann komi á eða í námunda við heimili konunnar og barna þeirra.

Niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir í dag en héraðsdómur úrskurðaði í málinu 29. september sl. Þar segir að lögreglustjóri hafi þrívegis lagt nálgunarbann á manninn og dómstólar hafi staðfest bannið tvisvar.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess að dómurinn myndi staðfesta ákvörðun lögreglustjóra frá 22. september sl um að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni í 6 mánuði.

Skildu fyrir tveimur árum

Maðurinn og konan gengu í hjúskap árið 2008. Þau skildu að borði og sæng 2012 og með lögskilnaði 2013. Þau eiga saman tvær dætur. Þau deildu um forræði þeirra og með dómi árið 2015 var ákveðið að konan færi með forræði þeirra en maðurinn mætti umgangast þær annan hvern laugardag á tilteknum tíma undir eftirliti barnaverndarnefndar.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að maðurinn hafi sætt nálgunarbanni gagnvart konunni og dætrum þeirra í 6 mánuði frá því í júlí 2013 samkvæmt úrskurði sem staðfestur var af Hæstarétti. Í október 2014 hafi manninum aftur verið gert að sæta nálgunarbanni, sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og af Hæstarétti í nóvember það ár.

Hefur setið í kringum heimili konunnar og barnanna

Þá segir að áður en síðara nálgunarbannið hafi verið lagt á hafi lögregla haft upplýsingar um að maðurinn hefði valdið konunni og dætrum þeirra miklu ónæði. Konan hafi farið með forsjá dætra þeirra og á þeim tíma hafði ekki náðst samkomulag um umgengni mannsins við þær. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafði maðurinn setið í kringum heimili konunnar og dætra þeirra og valdið miklu ónæði í skóla og á frístundaheimili eldri dótturinnar þar sem hann hefði sótt mjög stíft að hitta hana fyrir. Skólayfirvöld og barnavernd hafi rætt við manninn um að hegðun hans ylli henni mikilli vanlíðan.

Hann hafi hinsvegar ekki látið segjast og haldið uppteknum hætti og sótt hart að hitta barnið á skóla og frístundatíma. Í október 2014 hafi barnaverndarstarfsmaður rætt við dótturina og í viðræðum þeirra hafi komið fram að hún óttist pabba sinn og hafi hann sagt við hana að hann ætli að taka hana með sér. Þá óttist hún að hann myndi gera móður hennar eitthvað illt.

Lögreglan telur ljóst að konunni stafi ógn af manninum og ljóst sé að hún hafi undanfarið orðið að þola áreitni af hans hálfu og ógnandi hegðun. Þá liggi fyrir rökstuddur grunur um að hann hafi brotið gegn fyrrverandi eiginkonu og dóttur og að hætta sé á að hann haldi áfram með áreitni og að raska friði hennar og barna hennar. Telur lögreglustjóri ekki sennilegt að friðhelgi hennar og barna hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert