21.298 tekið afstöðu til líffæragjafar

Líffæragjöf getur bjargað mannslífum.
Líffæragjöf getur bjargað mannslífum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtals hafa 21.298 einstaklingar tekið afstöðu til líffæragjafar með skráningu í sérstakan gagnagrunn Landlæknisembættisins, samkvæmt upplýsingum frá embættinu. Gagnagrunnurinn var settur á laggirnar fyrir ári en vefsíðan þar sem hægt er að skrá afstöðu sína þjónar einnig hlutverki upplýsingasíðu um líffæragjöf.

Fram kemur í svari Landlæknisembættisins við fyrirspurn mbl.is að 99% af þeim sem hafa skráð sig í gagnagrunninn vilji gefa líffæri sín við andlát en innan við 1% þeirra vilja það ekki. Ennfremur kemur fram að 67% þeirra sem skráð hafa sig séu konur og 33% karlar. Þá eru 60% þeirra sem hafa skráð sig á aldrinum 20-40 ára.

Samkvæmt lögum þurfa einstaklingar að hafa náð tvítugsaldri til þess að skrá sig í gagnagrunninn. Ef tekið er mið af öllum landsmönnum 20 ára og eldri miðað við tölur Hagstofu Íslands hafa tæp 9% þeirra skráð sig í gagnagrunninn.

Hins vegar eru ekki inn í þessum tölum þeir einstaklingar sem bera á sér líffæragjafakort eða sem hafa upplýst nána ættingja um vilja sinn án þess að koma honum með öðrum hætti á framfæri. Engar tölur eru til í þeim efnum.

Vefsíða Landlæknisembættisins um líffæragjöf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert