Magnús í 18 mánaða fangelsi

Símon Sigvaldason, dómsformaður í málinu, gengur inn í salinn í …
Símon Sigvaldason, dómsformaður í málinu, gengur inn í salinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í Marple-málinu svokallaða í dag. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, var dæmdur í sex mánaða fangelsi, Magnús Guðmunds­son, fyrr­um bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Skúli Þorvaldsson var dæmdur í sex mánuði.

Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrr­um fjár­mála­stjóri bank­ans var sýknuð af öllum ákærum.

Þá voru gerð upptæk til ríkissjóðs öll verðbréf, fjárfestingarsjóður og innstæða á tilteknum bankareikningi í Lúxemborg sem nam samtals rúmlega 6,7 milljónum evra, en yfirvöld í Lúxemborg gerðu verðmætin upptæk við rannsókn málsins.

Ítarleg umfjöllun mbl.is um málið

Kröfu ákæruvaldsins um upptöku tiltekinna eigna ákærða Skúla, sem yfirvöld í Lúxemborg gerðu upptæk var hafnað. Þá var vísað frá dómi skaðabótakröfu Kaupþings á hendur Guðnýju Örnu. Skaðabótaskylda Hreiðars Más og Skúla var hins vegar viðurkennd vegna þeirrar háttsemi sem sakfellt var fyrir í málinu. 

Tugir milljóna í málsvarnarlaun

Hinir sakfelldur í málinu þurfa að greiða verjendum sínum háar fjárhæðir í málsvarnarlaun. Þannig þarf Hreiðar Már að greiða verjanda sínum tæpar 22 milljónir fyrir störf hans og kostnað upp á rúmar 1,7 milljónir.  Magnús greiðir verjanda sínum ríflega 11 milljónir, Skúli greiðir rúmar 16 og hálfa milljón og kostnað upp á 800.000 þúsund krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi málsins, 7,7 milljónir.

Ríkissjóður þarf hins vegar að greiðar málsvarnarlaun verjanda Guðnýjar Örnu, ríflega 18 milljónir.

Í mál­inu voru Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­um for­stjóri í Kaupþingi og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrr­um fjár­mála­stjóri bank­ans, ákærð fyr­ir fjár­drátt og umboðssvik. Magnús Guðmunds­son, fyrr­um for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg var aft­ur á móti ákærður fyr­ir hlut­deild í sömu brot­um, og fjár­fest­ir­inn Skúli Þor­valds­son ákærður fyr­ir hylm­ingu og pen­ingaþvott. Allir verjendur, nema verjandi Marple, voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna, en enginn ákærðu mættu.

Allir ákærðu í málinu kröfðust sýknu í málinu. Aðalmeðferð í málinu tók heila viku og lauk fyrir sléttum fjórum vikum.

Í málinu kröfðust verjendur sakborninga þess meðal annars að Ásgeir Brynjar Torfason, meðdómari í málinu, væri látinn víkja sæti sökum vanhæfis, en ekki var fallist á þá kröfu.

Ákæru­efnið er í mjög stuttu máli tvær milli­færsl­ur frá Kaupþingi til Kaupþings í Lúx­em­borg sem fóru áfram til fé­lags­ins Marple í Lúx­em­borg á ár­un­um 2007 og 2008, þar sem sak­sókn­ari tel­ur að um fjár­drátt sé að ræða. Heild­ar­upp­hæð þeirra er rúm­lega 6 millj­arðar. Þá seg­ir sak­sókn­ari að viðskipti með skulda­bréf í Kaupþingi hafi skilað Marple ólög­lega um 2 millj­örðum og ákær­ir þar fyr­ir umboðssvik

Frétt mbl.is: Meðdómarinn ekki vanhæfur

mbl.is