Meta jarðvegslagið undir stöplinum

Hafa þurfti snör handtök við að koma þessari á aftur …
Hafa þurfti snör handtök við að koma þessari á aftur á ról eftir að hún festi sig í forinni. Ljósmynd/Pétur Davíð Sigurðsson

Tekið er að sjatna verulega í Skaftá og í kring eftir hlaupið í ánni. Enn er óvíst um örlög Eldvatnsbrúarinnar en ekki er lengur tilkynnt um ný tjón til Vegagerðarinnar. Mikið land er undir leir eftir hlaupið og hafa bændur þurft að bjarga fé úr forarpyttum sem hafa myndast.

Borað var í undirlag brúarstöpul Eldvatnsbrúarinnar í gær til þess að kanna hvort áin hafi rofið jarðveginn undir átta metri þykkri hraunhellunni sem stöpullinn hvílir á. Farið verður yfir fyrstu niðurstöður á morgun, að sögn Guðmunds Vals Guðmundssonar verkfræðings hjá Vegagerðinni, og teknar ákvarðanir um framhaldið. Til skemmri tíma gæti þurft að fara í aðgerðir til þess að hindra frekara rof en í versta falli gæti þurft að finna annað brúarstæði, sé núverandi stæði orðið ótækt.

Um 800 metra vegarkafli í Hólaskjóli hvarf í hlaupinu en að svo komnu er ekki talið að frekari hætta sé á þjóðveginum eða öðrum stærri vegum.

Leir og drulla yfir túnum

„Áin er að nálgast venjulegt rennsli en er ekki komin í það enn. Það er töluverður leir alls staðar eftir þar sem lónaði upp og við höfum þegar þurft að bjarga einni kind upp úr sem hefur villst þangað út í og fest sig,“ segir Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi. „Það er eitthvað sem við þurfum að fylgjast með þar til fé fer á hús.“

Auður segir vatnið hafa brotið talsvert land sem hafi horfið í ána og talsvert öðruvísi sé um að litast eftir á. Þó hafi minni leir skilast á túnið heldur en þau hafi óttast. „Stærsta tjónið hjá okkur er að við missum að öllum líkindum 25 hektara af túnum sem við höfuð heyjað í Skaftárdal. Það er enginn vegur þangað lengur. Hann hvarf í hlaupinu og alveg ófært fyrir bíla og vélar þangað. Við vitum ekki hvað verður úr því.“

Oddsteinn Kristjánsson, bóndi að Hvammi, segir svipaða sögu af sínum bæ. Tjón er þar víðtækt og allar fyrirhleðslur sem urðu undir horfnar. Tjónið er þó ekki fullkannað enn þar sem hauststörf hafa tekið tíma hans allan en með kólnandi veðri og hléi í úrkomunni sem hefur verið á svæðinu sér fram á að frekari sjatni í ánni á næstunni.

Mikið hefur dregið úr rennsli Skaftár frá hlaupi og nálgast …
Mikið hefur dregið úr rennsli Skaftár frá hlaupi og nálgast það nú eðlilegt árfar. Ljósmynd/Guðbjörn Guðmundsson
Ljósmynd/Guðbjörn Guðmundsson
Ljósmynd/Guðbjörn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert