„Átti að gyrða niður um sig í beinni“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir ráðherrar síðustu ríkisstjórnar beittu sér í þágu hagsmuna orkufyrirtækisins Orka Energy í Kína. Þetta rifjar Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, á vefsíðu sinni vegna ásakana í garð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um að hann hafi gengið erinda fyrirtækisins. Vísað hefur verið til þess að Illugi hafi verið í opinberri heimsókn í Kína í boði þarlendra stjórnvalda á sama tíma og fulltrúar Orku Energy voru þar ásamt fulltrúum fleiri íslenskra fyrirtækja. Þetta hefur verið tengt við fyrri störf Illuga fyrir fyrirtækið og að stjórnarformaður þess væri vinur hans og hafi keypt af honum íbúð hans og konu hans og síðan leigt þeim hana.

Elliði bendir þannig á að samhliða því að Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, undirritaði fríverslunarsamning Íslands við Kína árið 2013 hafi verið undirritaður samningur á milli Orku Energy og Þróunarbanka Kína. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, hafi að sama skapi um hliðstætt leyti talað fyrir auknu samstarfi kínverskra og íslenskra orkufyrirtækja á fundi með Wen Jiabao, þáverandi forsætisráðherra Kína. Þá hafi þáverandi ráðherranir Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson verið viðstödd undirritun samnings Orku Energy og kínverskra stjórnvalda í þjóðmenningarhúsinu 2012.

Bæjarstjórinn segir alla þessa ráðherra hafa gert vel með stuðning sínum við íslensk orkufyrirtæki. Það hafi þeir gert jafnvel þó stjórnarformaður Orku Energy væri ekki vinur þeirra líkt og í tilfelli Illuga. Hins vegar hafi aðkoma Illuga verið gerð tortryggileg þrátt fyrir að hann hafi ekki gert annað en hinir ráðherranir á undan honum. Krafist hafi verið þess að Illugi opnaði heimilisbókhaldið og framvísaði kvittunum fyrir persónulegum útgjöldum. Laun sem hann hafi fengið greidd hafi jafnvel verið kölluð lán til þess gefa í skyn að um mútugreiðslur væri að ræða.

Óeðlilegt ef Illugi hefði neitað að kynna fyrirtækið

Elliði vísar til þess að Ríkisútvarpið hafi beðist afsökunar í vikunni á að hafa fullyrt að Illugi hefði fengið lán frá Orku Energy. Fjölmiðillinn hefði engin gögn sem sýndu fram á það. Ennfremur hafi Gestur Páll Reynisson, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, sagt í fjölmiðlaviðtali í apríl að það hefði fyrst þótt óeðlilegt ef Illugi hefði neitað að kynna fyrirtækið á erlendri grundu á þeim forsendum að leigusalinn hans tengdist fyrirtækinu. „Ætli þetta dugi til að leiðrétta fullyrðingar um spillingu?“ spyr Elliði.

„llugi gerði mistök. Hann átti að skilja andrúmsloftið á Íslandi nægilega vel til að átta sig á því að hann yrði að ganga langtum lengra í upplýsingagjöf en verið hefur í gegnum tíðina. Hann átti að átta sig á áhrifum lekamálsins. Hann átti að vera bljúgur við fjölmiðla og svara öllum þeirra spurningum. Jafnvel þegar hann var búinn að svara þá átti hann að svara aftur. Ef umfjöllun var ósönn átti hann að leiðrétta. Hann átti að gyrða niður um sig í beinni til að sanna að hann hafði ekkert að fela. Fyrir sinn eiginn hag átti hann að sýna allar myndirnar í myndasafninu, líka þær sem enginn á rétt á að fá að sjá,“ segir bæjarstjórinn áfram.

Sjálfur hefði hann hins vegar ekki aðeins gert það sama og Illugi gerði heldur gengið langtum lengra í þessa röngu átt. „Ég hefði skaða mig enn meira í þeirri viðleitni að vernda einkalífið. Nú er svo komið að staðreyndir málsins skipta orðið litlu. Eftir stendur að þetta mál hefur skaðað Illuga. Umræða um afsögn sem ráðherra vegna þess er hinsvegar ekki í takt við neinn veruleika.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert