Guðjóni gert að víkja í Aurum Holding-málinu

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, fór fram á það að …
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, fór fram á það að Guðjón skyldi víkja. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur hefur gert héraðsdómaranum Guðjóni St. Marteinssyni að víkja sæti sem dómsformaður í Aurum Holding-málinu. Hæstiréttur sagði, að draga mætti í efa að hugur hans gagnvart sérstökum saksóknara væri með þeim hætti að tryggt væri að óhlutdrægni yrði gætt við úrlausn málsins.

Hæstiréttur hefur þar með snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. september, sem Guðjón kvað upp sjálfur.

Málið varðar ummæli sem Guðjón lét falla í tölvubréfi svo og í blaðagrein sem fylgdi bréfinu en ekki var komið á framfæri til opinberrar birtingar. Taldi Hæstiréttur að orð Guðjóns væru hlutlægt séð fallin til að draga mætti með réttu í efa að hugur hans gagnvart sérstökum saksóknara væri með þeim hætti að tryggt væri að óhlutdrægni yrði gætt við úrlausn málsins. Var Guðjóni því gert að víkja sæti í málinu.

Upphafið má rekja til ágreinings um hæfi Sverris Ólafssonar

Málið tengist ágreiningi sem var um hæfi meðdómsmannsins Sverris Ólafssonar til að sitja í dómi í málinu í héraði. Það átti rætur að rekja til þess að í kjölfar uppkvaðningar héraðsdómsins var gert að umtalsefni í fjölmiðlum 8. júní 2014 að meðdómsmaðurinn væri bróðir Ólafs Ólafssonar athafnamanns, sem var verið ákærður af sérstökum saksóknara í Al Thani-málinu og sakfelldur að hluta með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015. Af þessu tilefni voru birt viðtöl við sérstakan saksóknara, sem hafði flutt þetta mál á hendur varnaraðilum. Þar lýsti saksóknarinn því að upplýsingar hafi ekki komið fram undir rekstri málsins fyrir dómi um að meðdómsmaðurinn væri bróðir Ólafs, svo sem saksóknarinn hafi talið að eðlilegt hefði verið að upplýsa um. Hann kvaðst mundu hafa álitið að efni væru til að gera athugasemdir ef honum hefði verið kunnugt um þessi tengsl. Yrði ríkissaksóknari þó að meta hvort krafist yrði af þessari ástæðu ómerkingar dómsins ef honum yrði áfrýjað til Hæstaréttar.

Sagði vinnubrögð sérstaks saksóknara „léleg og yfirborðskennd“

Fjölmiðlar birtu frekari fréttir um þetta 9. júní 2014, þar á meðal viðtöl við Sverri. Í þessum fréttum var meðal annars haft eftir honum að hann hafi greint Guðjóni frá fyrrnefndum tengslum, en ekki hafi verið talin ástæða til að upplýsa sérstakan saksóknara um þau. Kvaðst Guðjón ekki trúa því að saksóknarinn hafi ekki vitað af tengslunum frá upphafi, en hafi svo ekki verið bæri „það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð.“ Fyndust honum viðbrögð saksóknarans „hæpin“ og væru til marks „um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir ... á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“ Í annarri frétt var birt viðtal við Sverri, þar sem hann kvaðst meðal annars trúa „því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var, hann telji það hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Það laumast að mér sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn.“

Í frétt, sem birt var í dagblaði 11. júní 2014, sagði meðal annars: „Guðjón S. Marteinsson, dómsformaður í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, segir hvorki hann né sérfróðan meðdómara í málinu hafa valdið réttarspjöllum með því að upplýsa ekki sérstakan saksóknara um ættartengsl meðdómarans.“ Haft var eftir Guðjóni að vegna þess starfs gætti hann að hæfi sérfróðs meðdómsmanns, sem bæri enga „tilkynningaskyldu út á við“, en væru málflytjendur ósammála dómsformanni um hæfi meðdómsmanns gætu þeir gert athugasemdir og væri ekki við dóminn að sakast ef það væri ekki gert. Þá var eftirfarandi einnig haft eftir Guðjóni: „Ákæruvaldið á við sjálft sig hvernig það kannar bakgrunn sérfróðra meðdómsmanna. Hvað ákæruvaldið vissi eða vissi ekki er fyrir utan þessa umræðu“.

Ómaklegar aðdróttanir sérstaks saksóknara

Við meðferð málsins Hæstarétti var lagt fram tölvubréf Guðjóns frá 18. febrúar 2015 til ríkissaksóknara og verjenda varnaraðila, þar sem sagði meðal annars: „Ég varð bæði undrandi og fannst að mér vegið með ummælum sérstaks saksóknara í fjölmiðlum eftir uppsögu dómsins. Af því tilefni sendi ég hinn 10. júní 2014 stutta grein til birtingar í dagblaði. Mér þótti sanngjarnt og eðlilegt að greina ríkissaksóknara frá þessu og ræddi því við hana í síma sama dag auk þess að senda henni greinina. Sama dag ræddi ég símleiðis við sérstakan saksóknara sem kannaðist ekki við að hafa rætt bræðratengslin í símtali okkar 13. mars 2014 þótt hann kannaðist við símtalið og ýmislegt sem þar var rætt. Eftir þetta ákvað ég að birta ekki greinina enda ljóst að birtingin myndi valda miklu fjaðrafoki sem ekki væri á bætandi. Á þessum tíma gat ég hvorki séð fyrir né reiknað með því að krafa ákæruvaldsins undir áfrýjun málsins yrði ómerkingarkrafa. Ég hefði hins vegar birt greinina hefði svo verið. Það næsta sem gerðist var að ríkissaksóknari áfrýjaði og krefst ómerkingar dómsins. Sé ómerkingarkrafan byggð á hugmyndum ákæruvaldsins um vanhæfi Sverris Ólafssonar þrátt fyrir vitneskju um bræðratengslin frá upphafi og þrátt fyrir að ummæli sem Sverrir lét falla í fjölmiðlum eftir ómaklega aðdróttun sérstaks saksóknara í hans garð og raunar gegn mér einnig, en ummæli Sverris voru í raun ekki annað en eðlileg og skiljanleg mannleg viðbrögð hans, þykir mér sú krafa sæta furðu og nánast geta talist ódrengileg í þessu ljósi, enda vissi ríkissaksóknari allt um samskipti mín og sérstaks saksóknara og allt um framgöngu saksóknarans í fjölmiðlum og að Sverrir var í raun að svara ómaklegum aðdróttunum saksóknarans í sinn garð og í raun einnig í minn garð. Það sem hér hefur verið rakið eru málavextir í stórum dráttum og er rétt að allir hlutaðeigandi fái þessar upplýsingar nú.“

„Vegið gróflega að starfsheiðri mínum“

Með tölvubréfinu fylgdi „óbirta blaðagreinin (örlítið stytt)“, svo sem þar var komist að orði, en í henni sagði meðal annars: „Í þinghaldi 12. mars 2014 greindi ég frá því hverjir tækju sæti sem meðdómsmenn við upphaf aðalmeðferðar málsins. Það var því nægur tími fyrir málflytjendur að gera athugasemdir við skipan dómsins og unnt að leysa úr því fyrir aðalmeðferðina sem hófst 3. apríl. Daginn eftir, 13. mars, hringdi sérstakur saksóknari í mig og greindi mér frá tengslum Sverris og ... . Var sérstökum saksóknara greint frá því áliti mínu að ekkert skyggði á hæfi Sverris í málinu. Lauk samtalinu með því að sérstakur saksóknari kvað ákæruvaldið ekki ætla að gera athugasemd við hæfi meðdómsmannsins og var það ekki gert ... Frásögn sérstaks saksóknara verður ekki skilin öðruvísi en svo að með því að leyna embætti hans upplýsingum hafi verið komið í veg fyrir það að embættið gæti gert athugasemdir við hæfi meðdómsmannsins. Með þessu er vegið gróflega að starfsheiðri mínum ... Þá hefur saksóknarinn vegið að Sverri með því að gefa í skyn, gegn betri vitund, að hann hefði átt að upplýsa embætti sérstaks saksóknara um tengsl ... Saksóknarinn veit vitaskuld að sú framkvæmd hefur ekki lagastoð ... Ég hef aldrei á löngum starfsferli verið vændur um það að hafa hagað málum þannig að hallað sé rétti annars málsaðilans eins og sérstakur saksóknari hefur nú gefið í skyn. Undir þessu er ekki hægt að sitja. Því er grein þessi rituð og til að almenningur geti kynnt sér sannleikann.“

Í málinu var jafnframt lagt fram tölvubréf sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara 18. febrúar 2015, þar sem sagði meðal annars: „Kærandinn í Aurum-málinu var slitastjórn Glitnis en fram hafði komið að meðdómarinn hafði unnið fyrir slitastjórn Glitnis í tilteknu máli. Að þessum upplýsingum fengnum taldi ég tilefni til að gera dómaranum viðvart um þau tengsl meðdómarans við kæranda málsins þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess varðandi hæfi hans. Af því tilefni þá hringdi ég til hans sennilega 13. mars. Enn og aftur skyldleikatengsl meðdómarans við ... voru ekki rædd í því símtali enda hefði ákæruvaldið þá klárlega gert athugasemd við þá skipan dómsins.“

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 511/2014 var til úrlausnar hvort ómerkja ætti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum á þeim grunni að ummæli, sem meðdómsmaður lét falla opinberlega eftir uppkvaðningu dómsins, yrðu höfð til marks um að hann hafi verið vanhæfur til að gegna því verki meðan á rækslu þess stóð. Sú varð niðurstaðan í dómi Hæstaréttar. Þar var ekki á því byggt að samsvarandi brestur hafi verið á hæfi dómsformannsins Guðjóns St. Marteinssonar til að fara með málið fyrir uppkvaðningu dómsins 5. júní 2014. Á hinn bóginn verður að gæta að því að nú er til úrlausnar hvort atvikum, sem gerðust eftir uppkvaðningu dómsins, sé þannig háttað að dómsformaðurinn sé vanhæfur til að fara framvegis með málið og fella dóm á það á nýjan leik. Til þess var engin afstaða tekin í dómi Hæstaréttar.

Ummæli sérstaks saksóknara hófstillt

Hæstiréttur vísar svo til ummæla sem Guðjón lét falla í óbirtu blaðagreininni. „Frásögn sérstaks saksóknara verður ekki skilin öðruvísi en svo að með því að leyna embætti hans upplýsingum hafi verið komið í veg fyrir það að embættið gæti gert athugasemdir við hæfi meðdómsmannsins. Með þessu er vegið gróflega að starfsheiðri mínum ... Ég hef aldrei á löngum starfsferli verið vændur um það að hafa hagað málum þannig að hallað sé rétti annars málsaðilans eins og sérstakur saksóknari hefur nú gefið í skyn. Undir þessu er ekki hægt að sitja.“

Þá segir Hæstiréttur: „Í dómi réttarins í máli nr. 511/2014 kom meðal annars fram að ummæli sérstaks saksóknara, sem urðu kveikjan að orðum dómsformannsins, hafi eins og atvikum var háttað verið hófstillt og ekki gefið tilefni til slíkra viðbragða sem sýnd hafi verið. Það sama á hér við að breyttu breytanda. Orð dómsformannsins, einkum þau sem greindi í tilvitnun hér að framan, voru hlutlægt séð fallin til að draga megi með réttu í efa að hugur hans gagnvart sérstökum saksóknara sé með þeim hætti að tryggt sé að óhlutdrægni yrði gætt við úrlausn málsins, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Ber honum því að víkja sæti í málinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert