Í nálgunarbann vegna ofbeldis

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann til að sæta nálgunarbanni í fjóra mánuði en maðurinn er grunaður um að hafa beitt barnsmóður sína ofbeldi auk þess sem hann hafi áreitt hana.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi tók ákvörðun um nálgunarbann og brottvísun af heimili þann 26. september sl. Í framhaldinu var þess krafist þess að héraðsdómurinn myndi staðfesta ákvörðuna, en það var gert 2. október sl. Í gær staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms. 

Í ákvörðun lögreglustjóra segir að samkvæmt gögnum málsins muni konan og maðurinn hafa verið par í 3-4 ár en upp úr sambandi þeirra hafi slitnað á árinu 2011 eða 2012.  Þau eigi saman barn en fyrir hafi konan annað barn fyrir.

Sakaður um að beita barnsmóður sína andlegu og líkamlegu ofbeldi

Þann 30. júlí sl. tikynnti konan til lögreglu að hún hefði orðið fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu mannsins. Við skýrslutöku þann 10. ágúst, lýsti konan nokkrum skiptum þar sem maðurinn hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi, ruðst inn á heimili hennar og barnsföður hennar, átt í hótunum við hana og bróður hennar, sýnt henni ruddalega framkomu á ýmsa vegu og væri með stöðugt áreiti á hana í síma og með sms-smáskilaboðasendingum.

Konan sagði að hún hefði aldrei leitað til læknis eftir að maðurinn hafði beitt hana líkamlegu ofbeldi og því væru ekki fyrir hendi læknisvottorð um slíkt. Í lok skýrslutökunnar hafi hún ekki viljað kæra manninn til refsingar vegna meintra brota en óskað eftir því að honum yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart henni, samkvæmt ákvörðun lögreglu.

Maðurinn undiritaði skriflega yfirlýsingu 19. ágúst um að hann myndi ekki setja sig í samband við konuna á nokkurn hátt á átta vikna tímabili frá 19. ágúst að telja.  Auk þess sem hann hafi samþykkt eftirfylgni lögreglu og félagsþjónustu vegna málsins. 

Hélt áfram að áreita konuna

Þann 25. september sl. setti réttargæslumaður konunnar aftur fram kröfu um nálgunarbann. Við skýrslutöku af konunni þann sama dag hafi hún upplýst að maðurinn hafi að undanförnu ekki staðið við yfirlýsingu sína og hafi reynt að hringja í hana tvívegis og tvisvar sinnum sent sms. 

Skýrslan var tekin af manninum daginn eftir og þar viðurkenndi hann að hafa átt í þessum samskiptum við konuna þrátt fyrir efni fyrrgreindrar yfirlýsingar. Þá viðurkenni hann að hafa ítrekað haft samskipti við barn þeirra vikuna áður þrátt fyrir tilmæli félagsmálastjóra um að vera ekki í samskiptum við barnið á meðan á úrlausn málsins stæði og þar til hann hafi lokið áfengismeðferð.

Samkvæmt gögnum málsins á maðurinn við áfengisvandamál að stríða en samkvæmt framburði hans sjálfs hafði hann ekki neytt áfengis í 10 daga. Auk þess sem hann sagðist eiga meðferðarpláss á Vogi. 

Konan lýsti viðvarandi áralöngu ofbeldi hans í garð hennar, auk hótana. Börn hennar muni að einhverju leyti hafa orðið vitni að umræddu ofbeldi. Þá lýsti hún ótta sínum um velferð sína og ekki síður barna sinna.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að það beri að fallast á það með lögreglustjóra að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt barnsmóður sína líkamlegu ofbeldi. Þá hafi komið fram að börn brotaþola konunnar og mannsins, þ.m.t. dóttirin, hafi að einhverju leyti orðið vitni að ofbeldinu.

Því var ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi staðfest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert