Heimsreisa sem hefst í hjartanu

Margrét Lóa er hrifin af rauðu, á rauða vespu og …
Margrét Lóa er hrifin af rauðu, á rauða vespu og rauða kápu og hefur hundinn sinn í körfu aftan á. mbl.is/Eva Björk

Ég vakna ekki klukkan átta og sem ljóð fram til klukkan eitthvað. Ljóðið kemur til mín þegar því hentar, en ég passa að halda öllum gluggum opnum og loka engum dyrum. Þó mér finnist ég ekki hafa neinn tíma til að sinna ljóðinu í annríki vinnu minnar sem kennari, þá þröngvar það sér gegnum allt. Ég held tryggð við ljóðið af því það er alltaf jafn mikil áskorun að kljást við það, þetta er oft ótrúleg glíma! Ljóðagerð er líka þerapískt fyrirbæri, kaþarsis, það býr yfir þeim galdri að fólk getur skrifað sig frá sorg, ótta og sársauka. Ljóðið veitir huggun og svölun. Ég ligg til dæmis í ljóðasöfnum þegar ég er lasin,“ segir ljóðskáldið og listakonan Margrét Lóa Jónsdóttir sem sendir nú frá sér ljóðabókina Frostið inni í hauskúpunni.

Rómantísk og viðkvæm

„Lífið er ákveðið ferðalag og í þessari nýju ljóðabók fjalla ég um heimsreisu sem hefst í hjartanu. Mörg ljóðanna urðu til á flugstöðvum, því þar opnast árvökult tígrisauga okkar og þar vaknar um leið ákveðin frumskógartilfinning. Þetta er líka bók um það að vera einn á ferðalögum og um þrána. Þarna eru líka minningarljóð og ástarljóð og hugleiðingar um einveru. Ég er mjög rómantísk manneskja og viðkvæm og einvera finnst mér dásamlegt fyrirbæri. Einsemd er allt annað. Ég þarf stundum að minna mig á gamla góða máltækið: Maður er manns gaman, úr Hávamálum, því mér finnst svo gott að vera ein. En á sama tíma er ég félagslynd og fyrir mér er vináttan hástig mannlegs samfélags. Og gleymum ekki vináttunni við okkur sjálf, að geta verið sjálfum okkur næg og að vera okkur góð.“

Margrét Lóa lærði heimspeki á sínum tíma og segir það alltaf fylgja sér. „Í nýju bókinni vinn ég með heiminn og ég flétta stöðu heimsmálanna inn í eigin heimsreisu. Þegar maður fer í heimreisu er óhjákvæmilegt að segja líka frá ljótleikanum, pyntingum, frelsisskerðingu, hælisleitendum. Ég er líka að hugsa til kvenna og stöðu þeirra í heiminum, ég hugleiði sýruárásir sem sumar verða fyrir og búrkuna sem aðrar klæðast. Ég laðast mikið að þunga og dauða. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég setti saman myndir af öllum uppáhaldsskáldunum mínum, þá rann upp fyrir mér að þau höfðu öll svipt sig lífi,“ segir Margrét Lóa og bætir við að hún tefli saman fegurð og ljótleika í nýju ljóðabókinni.

„Eitt ljóðið, Máraþorp, fjallar til dæmis um ótrúlega fagurt útsýni sem ég hafði þegar ég bjó í fjallaþorpi í Andalúsíu. Þar komst ég að því að fegurð venst ekkert frekar en ljótleiki. Ég var alltaf jafn hugfangin og trúði vart mínum eigin augum í hvert einasta skipti sem ég fór á fætur. Á veröndinni tók golan á móti mér og óendanleg fegurð blasti við, minjar frá því löngu fyrir Krist, Márakastalinn, Borgarvirkið og fjöllin í Afríku,“ segir Margrét Lóa sem var með ljóðabók Nínu Bjarkar, Svartur hestur í myrkrinu, á náttborðinu hjá sér þegar hún dvaldi í Andalúsíu.

„Ég tek hana og nokkrar aðrar ljóðabækur alltaf með mér hvert sem ég fer.“

Margrét Lóa með dóttur sína Viktoríu árið 1991.
Margrét Lóa með dóttur sína Viktoríu árið 1991. mbl.is/Einar Falur

Ég elska rautt

Heilmikil erótík er í bókinni um frostið í hauskúpunni og ljóðin eru sannarlega litrík.

„Ég er mikið fyrir liti. Ég elska rautt og þegar ég var barn þá var ég oft rauðklædd frá toppi til táar. Börn voru svo frjáls þá, það eimdi líklega eitthvað eftir af hippatímanum. Allir sterkir og heitir litir höfða til mín, en þegar ég teikna þá er það yfirleitt svarthvítt. Ég skrifa í litum en sæki ekki í að vinna með liti í myndunum mínum, eins og sjá má á umgjörð bókarinnar sem er svört og hvít. Ég teiknaði myndirnar sem prýða kápuna, en hringurinn er mér hugleikinn, þetta kvenlega form. Sjöundi hringurinn er ljóðið aftan á bókarkápunni. Ég hugsa þetta allt sem eina heild, hönnunin og umgjörðin skiptir mig miklu máli.“

Vill taumlaust flæði

Tíu ár eru frá því Margrét Lóa sendi frá sér ljóðabók síðast, en 30 ár eru frá því hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Glerúlfa. Hún á því stórafmæli sem skáld.

„Ég var ekki nema 18 ára þegar ég gaf út Glerúlfa, en hún var skrúfuð saman með stórum skrúfum. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr hönnun bókanna minna, enda fæst ég töluvert við myndlist líka. Ég hef reynt að helga mig sýningarhaldi, upplestrum, gjörningum og geisladiskaútgáfu í þessi tíu ár frá því síðasta bók kom út. Ég hef til dæmis prentað ljóð á silki, plast og léreft. Þessi tíu ár eru löng þögn í útgáfu, en ég hef sem sagt haldið nokkrar sýningar á þessum tíma og gert tilraunir með að prenta ljóð á mismunandi efnivið og að lesa upp ljóð með tónlist,“ segir Margrét Lóa og bætir við að hún hafi gengið í gegnum nokkur stig á ljóðaferlinum.

„Ég hef viljað taumlaust flæði og ég hef viljað koma frá mér því sem hefur legið mér mikið á hjarta í sem allra, allra fæstum orðum. Samkennd er nokkuð einkennandi fyrir ljóðin mín þessa dagana. Annars hefur ákveðinn tónn náð að fylgja ljóðunum mínum alveg frá upphafi og ég er satt að segja mjög þakklát fyrir það.“

Úr viðtali í Helgarpóstinum 17. okt 1985 þegar fyrsta ljóðabókin …
Úr viðtali í Helgarpóstinum 17. okt 1985 þegar fyrsta ljóðabókin kom út.

Ský í kjól

Ég er ský í kjól

heimsreisa sem hefst í hjarta þínu

eina hlið sjálfsins sem kann þá list að skína

sterk og rösk einsog sjókona

hamingjusöm einsog hundrað skríkjandi smábörn

Ligg í döggvotu grasi og hugsa um bragð

af vörum sem ég hef enn ekki kysst

þú sérð mig í rómantískum gamanmyndum

ég er sú sem fær demantshring og koss

og allir klappa fyrir í lokin

Ljóðabækur, skáldsaga, geisladiskur

Verk sem komið hafa út

eftir Margréti Lóu:

• Glerúlfar, ljóð, 1985

• Náttvirkið, ljóð, 1996

• Orðafar, ljóð, 1989

• Ávextir, ljóð, 1991

• Tilvistarheppni, ljóð, 1996

• Ljóðaást, ljóð, 1997

• Háværasta röddin í höfði mínu, ljóð, 2001

• Hljómorð, ásamt tónlistarmanninum Gímaldin, Ljóðaúrval MLJ á geisladiski, 2003

• Laufskálafuglinn, skáldsaga, 2004

• Tímasetningar, ljóð, 2005

• Frostið inni í hauskúpunni 2015

Útgáfuhóf verður í Eymundsson á Skólavörðustíg næstkomandi miðvikudag, þann 21. október þar sem Margrét Lóa ætlar að frumflytja nokkur ljóð úr nýju bókinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert