Langt frá því að vera einkaskjöl

Frá hernámsárunum á Íslandi.
Frá hernámsárunum á Íslandi. mbl.is

Saga kvennanna á Kleppjárnsreykjum hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarið eftir að sú starfsemi sem þar fór fram komst í umræðuna í kjölfar útgáfu heimildamyndarinnar Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum eftir Ölmu Ómarsdóttur.

Frétt mbl.is: Svartur blettur í sögunni

Skjöl sem Jóhanna Knudsen lögreglukona safnaði um konur sem voru sagðar í tygjum við hermenn voru afhent Þjóðskjalasafni Íslands með þeim fyrirvara að þeim yrði haldið leyndum í 50 ár. Ættingjar Jóhönnu, sem afhentu safninu skjölin, sögðu að um hennar persónulegu skjöl væri að ræða. Annað kom á daginn.

„Kleppjárnsreykjagögnin komu þegar Stefán Benediktsson, sem síðast þegar ég vissi starfaði fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, afhenti vistheimilanefnd þau gögn,“ segir Benedikt Eyþórsson, skjalavörður hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Benedikt hefur áður fengist við skjöl sem geyma upplýsingar um misjafnt athæfi stjórnvalda, en hann starfaði áður hjá vistheimilanefnd.

Faðir Stefáns var síðasti forstöðumaður Kleppjárnsreykja, en gögnin komu í ljós þegar verið var að ganga frá dánarbúi foreldra Stefáns.

„Þá var ég að vinna fyrir vistheimilanefndina og Vatnajökulsþjóðgarður deildi húsnæði með okkur,“ segir Benedikt. „Þá barst þetta í tal og hann kom þessu í hendur vitheimilanefndar með því fororði að við kæmum því áleiðis á réttan stað,“ segir Benedikt, en nefndin afhenti Þjóðskjalasafninu gögnin skömmu síðar. Í skjölunum mátti finna gögn um einstaka stúlkur sem dvöldu á Kleppjárnsreykjum, dagbækur forstöðumanna Kleppjárnsreykja og bréfaskriftir þeirra við yfirvöld. Þessi gögn voru afhent 2010.

Gögnin falla að sögn Benedikts undir lög um opinber skjalasöfn þannig að þeim þurfi að halda leyndum í 80 ár sé tilefni til á grundvelli persónuverndarsjónarmiða. Eftir nokkur ár verða þau gögn algjörlega opin, því árin 80 þurfa að líða frá því gögnin urðu til. Einhver hluti þeirra er þó að einhverju leyti aðgengilegur í dag, en gögn með persónugreinanlegum upplýsingum eru háð aðgangstakmörkunum.

Afhent í maskínupappír með seglgarni og lakkinnsigli

Gögnin sem Jóhanna Knudsen átti eru svo annar angi í þessu máli. „1961 afhentu ættingjar Jóhönnu böggla til varðveislu. Það kom bara pakkað í maskínupappír, bundið seglgarni og innsiglað með lakkinnsigli eins og var í gamla daga. Þetta er afhent Þjóðskjalasafninu með því fororði að þetta yrði lokað í 50 ár frá móttöku,“ segir Benedikt.

Á þessum tíma eru hvorki í gildi stjórnsýslu- né upplýsingalög þannig að tiltölulega algengt var að einstaklingar afhentu skjöl með skilyrðum sem þessum. „Þetta fór bara í öryggisgeymslu hjá Þjóðskjalasafninu og var óhreyft í 50 ár. Það eina sem fólk vissi um þetta var færsla í afhendingarskránni og alltaf tilgreint sem einkaskjöl Jóhönnu Knudsen,“ segir Benedikt.

2011 eru bögglarnir svo opnaðir hjá Þjóðskjalasafninu. „Þá sáum við strax að þetta eru ekki einkaskjöl hennar heldur skjalasafn ungmennaeftirlitsins sem Jóhanna veitti forstöðu og enduðu heima hjá henni þegar það var lagt niður snögglega og þar af leiðandi opinber skjöl, þó svo að aðgangstakmarkanir séu að stórum hluta út af persónuverndarsjónarmiðum,“ segir Benedikt.

„Þetta eru alveg stórmerkileg skjöl og í rauninni alveg ótrúlegt út af þessu „twisti“ að þau enda í dánarbúinu hennar og frábært að þau hafi þó skilað sér. Þetta hefði svo hæglega getað endað á haugunum,“ segir Benedikt og bendir í því samhengi á að á þessum tíma hafi það sjónarmið verið ríkjandi að besta leiðin til að halda trúnað við skjólstæðinga hafi verið að eyða gögnunum. „Enn þann dag í dag eimir eftir af þessu sjónarmiði.“

Beinagrindin að stofnuninni

Hann segir vinnugögn Jóhönnu vera hluta af gögnunum, bókhald og eftirlitsgögn, sem hann segir ótrúlega ítarleg. „Síðan eru þarna ýmsar skýrslur og málin sem fóru fyrr ungmennadómstólinn, þar sem stúlkur voru dæmdar til vistar á Kleppjárnsreykjum eða dæmdar í sveit.“ Þessi skjöl segir hann háð aðgangstakmörkunum, en mögulegt væri að fá aðgang að einhverjum dómum, sem þá væri búið að verka þannig að ekki væri hægt að greina hvaða stúlkur, sem nú væru líkast til á níræðis eða tíræðisaldri, áttu í hlut.

„Síðan eru þarna bréfasöfn hennar og samskipti við aðra einstaklinga, það er alveg opið. Þar eru engar viðkvæmar persónuupplýsingar. Það er ein skjalaaskja, sem er í rauninni beinagrindin að stofnuninni [ungmennaeftirlitinu] sem slíkri. „Kjötið“ er svo háð aðgangstakmörkunum,“ segir Benedikt.

Hann segir að á þessum árum hafi gripið um sig ótrúleg „hystería“ og að ótrúlegar skoðanir hafi náð fótfestu. Jóhanna Knudsen hafi langt því frá verið ein að verki, því hún átti sér skoðanabræður og -systur. „Hún gekk ansi hraustlega til verks, það er ekki hægt að neita því,“ segir Benedikt.

Hann segir að að lokum hafi barnaverndaryfirvöld og fleiri í þeim geira snúist gegn Jóhönnu og stöðvað hana. „Í síðasta lagi 1944 er sent harðort bréf til stjórnvalda og gerðar athugasemdir við framkvæmdina á þessu. Eins og ég skil þetta þá varð sá þrýstingur og sú gagnrýni til þess að loka batteríinu. Kleppjárnsreykjum var lokað aðeins fyrr og svo er þetta eftirlit lagt af,“ segir Benedikt. 

Hernámið hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag.
Hernámið hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag. mbl.is/Ólafur K. Magnússon
mbl.is