Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að það að Glitnir afsali öllu hlutafé ISB Holding ehf., sem er eigandi 95% hlutafjár Íslandsbanka hf., til stjórnvalda, sem hluta af stöðugleikaframlagi sé „mjög jákvætt mál“.
Frétt mbl.is: Ríkið eignast Íslandsbanka
„Okkar verkefni er að losa um höftin - lyfta þeim - en á sama tíma að verja hagkerfið. Ég tel að með þessu séum við að ná árangri á þeirri vegferð og að sjálfsögðu er það mjög jákvætt,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is.
Fjármálaráðherra segir að með tímanum hafi komið í ljós, að það hafi verið mjög óraunhæft að slitabú Glitnis gæti átt Íslandsbanka og á sama tíma haft væntingar um það, að geta tekið allt söluandvirði hans út úr landinu, þegar gert væri upp við kröfuhafana.
„Þessi nálgun vindur meðal annars ofan af því að til þessa kæmi,“ sagði Bjarni.
Aðspurður hvort ekki lægi beinast við, eftir að ríkið verður komið með Íslandsbanka í fangið og á nánast allan Landsbankann fyrir, að þessir tveir bankar verði sameinaðir, sagði Bjarni: „Í flestöllum öðrum löndum þætti það eðlilegt næsta skref, en það eru ýmis önnur sjónarmið í þessu litla hagkerfi okkar, sem líka þarf að horfa til. Það er ljóst að við þurfum að gæta að samkeppnissjónarmiðum á fjármálamarkaði.
Að því leyti sem frekari hagræðing í fjármálakerfinu getur leitt til betri viðskiptakjara og hagstæðari reksturs, þá finnst mér að sameining bankanna hljóti alltaf að koma til álita, en síðan eru það önnur sjónarmið sem toga þar á móti, og við erum alls ekki komin á neinn slíkan stað. enda á margt eftir að gerast, áður en ríkið fær bankann í sínar hendur.“
Fjármálaráðherra var spurður hvort hann ætti von á svipuðu útspili frá slitastjórn Kaupþings, hvað varða eignarhlut í Arionbanka: „Við gerum ekki ráð fyrir því," sagði Bjarni.
Bjarni var loks spurður hvort ríkið myndi fljótlega selja hluta, jafnvel stóran hluta í Íslandsbanka, eftir að bankinn væri kominn í eigu ríkisins:
„Það er ekki komið að því að ríkið taki við bankanum, en ef þessar hugmyndir ganga eftir, þá munum við gefa okkur góðan tíma til þess að fara yfir stöðuna. Ég sé það ekki fyrir mér sem framtíðarlausn að ríkið fari með allt eignarhald bæði í Landsbankanum og Íslandsbanka. Það liggur beinast við að vinda sér strax í áætlanir um það hvernig framtíðareignarhaldi verður háttað. Ég hef ekki áhyggjur af því þótt ríkið eigi verulegan hlut í einhvern tíma, en mér finnst mikilvægt að við kynnum áform um það hvernig ríkið hyggst losa um eignarhlut sinn sem fyrst og við verðum að vanda vel til undirbúnings að því,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.