Back to the future dagurinn í dag

„Þangað sem við förum eru engir vegir,“ sagði Doc Brown við Marty McFly áður en þeir ferðuðust til ársins 2015 í lok myndarinnar Back to the Future. Dagsetningin var nánar tiltekið 21. október 2015 og þá lentu þeir félagar í Hill Valley í annarri myndinni í þríleiknum vinsæla.

Spádómurinn rættist reyndar ekki alveg þar sem flugbílar hafa ekki náð vinsældum. Fáar bíómyndir hafa fangað ímyndunarafl heillar kynslóðar eins og myndirnar en þar sáust: sjálfreimandi skór, svifbretti sem margir hafa beðið eftir með eftirvæntingu og sjálfþurrkandi jakkar. Ekkert af þessu hefur þó náð útbreiðslu en það er hugsanlega bara spurning um hvenær en ekki hvort, Lexus er allavega að prufa sig áfram með svifbrettin.

Margir Chicago búar bundu vonir við að myndin myndi aflétta álögum á hafnaboltaliðinu Cubs sem hefur ekki unnið MLS deildina frá árinu 1908 en Marty var meira en lítið undrandi þegar hann komst að því að Cubs sigruðu deildina árið 2015 og voru þar af leiðandi krýndir heimsmeistarar að amerískum hætti. Þrátt fyrir töluverða velgengni í ár þar sem liðið komst í úrslitakeppnina er útlitið þó svart þar sem New York Mets virðast ekki ætla að eiga í erfiðleikum með að slá liðið úr keppni í undanúrslitum. Vonirnar voru þónokkrar enda er hjátrú stór hluti af hafnabolta hjá mörgum.

Í dag og í kvöld verður deginum fagnað víða um heim og m.a. í Bíó Paradís þar sem allar myndirnar verða sýndar. Þá mun Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, flytja erindi um tímaflakk en hann er mikill aðdáandi myndanna og segist horfa á þær á hverju ári. 

Í myndskeiðinu er m.a. rætt við Sævar um Back to the Future, tímaflakk og sjálfreimandi skó.

Sjá frétt mbl.is: Árið með augum Back To The Future

Fyrir neðan má sjá brot úr heimildamyndinni Back in Time sem gerð var í tilefni dagsins ne hún verður sýnd í Bíó Paradís  á morgun.

Þá verður Back to the Future 2 sýnd tvisvar sinnum á RÚV í dag: kl. 14 og kl. 23.10. Þeim sem missa af sýningunum er bent á tímaflakkið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert