„Verðtryggingin er að drepa allt“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

„Ódýrt fjármagn er ekki til á Íslandi. Verðtryggingin er allt að drepa á þessu landi og hér mun ekkert breytast fyrr en hún fer,“ segir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hann lét ummælin falla í umræðum um störf þingsins á Alþingi, en fundur hófst þar klukkan 15.

Karl benti á, að samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar búi fjórir af hverjum tíu landsmönnum á aldrinum 20-29 ára enn í foreldrahúsum. Til samanburðar sé hlutfallið um 10% í Danmörku. Karl benti á að ástæður á baki þessu geti verið margvíslegar; margir séu t.a.m. í háskólanámi. Ljóst sé að erfitt geti verið að fjármagna nám samhliða því að greiða leigu - hvað þá að kaupa húsnæði. 

Hann vísaði til þess að í morgun hefði verið haldinn þjóðfundur þriggja ráðherra þar sem fjallað hafi verið um möguleika á nýjum og ódýrari leiðum á húsnæðismarkaði. Karl sagði þetta vera gott framtak.

„Tími til athafna er kominn, við getum ekki setið lengur hjá. Félagsmálaráðherra hefur lagt fram ákveðnar hugmyndir sem eru skref í rétta átt. Til að ná utan um húsnæðismál ungs fólks og finna viðunandi lausnir, þurfa hins vegar fjölmargir að koma að borðinu. Það má enginn vera stikkfrí,“ sagði Karl og bætti við að umhverfisráðherra og viðskiptaráhðerra hefðu einnig mætt á fundinn í morgun. 

„Staðreyndin er sú að heil kynslóð ungs fólks hefur ekki efni á þaki yfir höfuðið nema með aðstoð foreldra. Þetta unga fólk getur hvorki keypt né leigt,“ sagði Karl og bætti við að þetta væri hins vegar ekki nýtt vandamál. 

„Við getum breytt reglugerðum, barið niður lóðaverð og líka byggingakostnað en fjármagnskostnaðurinn er öllu venjulegu fólki ófviða. Ódýrt fjármagn er ekki til á Íslandi. Verðtryggingin er allt að drepa á þessu landi og hér mun ekkert breytast fyrr en hún fer,“ sagði þingmaðurinn.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng og Karl. Hún spurði að stjórnvöld yrðu að svara því hvort afnema ætti verðtrygginguna eður ei, hvort það ætti að setja þak á verðtryggð húsnæðislán eða hvort auka ætti hvata til lántöku á óverðtryggðum lánum. „Hver er staðan og hvernig standa málin?“

Hún sagði að það væri erfitt að átta sig á því hvað valdi því að verðtryggingarmálin hafi ekki enn komið inn í þingið. „Er verið að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi innan velferðarráðuneytisins? Eða er kannski verið að bíða eftir niðurstöðum í máli Hagsmunasamtaka heimilanna er varðar lögmæti verðtryggingarinnar? Ef svo er þá er nauðsynlegt að það mál fái flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Eða er kannski ástæðan bara allt, allt önnur?“

Hún minntist jafnframt á þjóðfund þriggja ráðherra um húsnæðismál, sem fór fram í morgun. „Tími athafna er kominn, þessi ríkisstjórn ætlar að láta verkin tala og í því samhengi verðum við að afnema verðtryggingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina