Framtíðarsetur Íslands stofnað

Við undirskriftina í dag.
Við undirskriftina í dag.

Framtíðarsetur Íslands var stofnað í dag að viðstaddri Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra. Aðild að setrinu eiga KPMG, Háskólinn á Bifröst og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Stofnendur Framtíðarseturs Íslands vilja með stofnun setursins koma á laggirnar metnaðarfullri starfsemi hér á landi á sviði rannsókna og þjónustu, í samstarfi við ólíka aðila samfélagsins, um margvíslega framtíðarrýni.       

Í tilkynningu kemur fram að rannsóknir og þjónusta á þessu sviði í gegnum framtíðarstofnanir, setur og/eða háskóla er starfrækt í öllum samanburðarlöndum Íslands. Rannsóknirnar og þjónustan eru notaðar við stefnumótun, til að skapa og þroska umræðu um álitamál samfélaga, byggðaþróun og við áhættumat í tengslum við ákvarðanir svo sem á sviði fjárfestinga og hverskyns vá. Erlendis er framtíðarfræði viðurkennd fræðigrein innan félagavísinda en henni hefur hins vegar verið minni gaumur gefinn af háskólasamfélaginu hérlendis hingað til.

Framtíðarsetur Íslands mun leggja áherslu á innleiðingu aðferða og hugsjóna framtíðarfræða inn í almennt háskólanám og bjóða stjórnvöldum, fyrirtækjum og stofnunum aðgang að bæði sviðsmyndagreiningu ásamt öðrum aðferðum fræðigreinarinnar.

Með stofnun setursins vilja aðstandendur þess auka við fagleg viðhorf þegar framtíðin er metin. Setrið er  stofnað til almannaheilla, þ.e. þeim hagsmunum almennings sem felast í markmiðum setursins:

 „Að vera leiðandi rannsóknasetur á sviði framtíðarfræða hérlendis í öflugu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir hérlendis sem og erlendis. Hlutverk félagsins verður ekki að afla eigendum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstrinum og mun félagið ekki greiða félagsmönnum sínum arð.“ Setrið skal vera virkur þátttakandi í rannsóknarverkefnum er varðar samfélagstengda framtíðarþróun og önnur samfélagsverkefni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert