Kyrrsetning á eignum Strawberries ómerkt

Strawberries.
Strawberries. mbl.is/Golli

Úrskurður héraðsdóms um kyrrsetningu á eignum sem tengjast kampavínsklúbbnum Strawberries var ómerktur í Hæstarétti í gær. Dómari í héraði tók lengri tíma en lög gera ráð fyrir til að úrskurða um kyrrsetninguna og því þarf að taka kröfuna fyrir aftur. Grunur er um stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti sem tengist staðnum.

Kyrrsetningarkrafan varðaði fasteignir í Reykjavík og Hafnarfirði, ökutæki, fjármuni og hluti í félögum sem tengjast staðnum. Hún var sett fram í kjölfar rannsóknar á ætlaðri sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanna og starfsmanna Strawberries.

Rannsókn á þeim þætti málsins var felld niður en við rannsókn á staðnum vaknaði grunur um stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti. Þau brot eru nú til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra en talið er að undanskotin nemi tugum milljóna króna.

Í sumar staðfesti Hæstiréttur aðra kyrrsetningarkröfu á eignum annarra félaga sem einnig tengjast starfsemi Strawberries til tryggingar á kröfum að fjárhæð rúms hálfs milljarðs króna.

Að þessu sinni ómerkti Hæstiréttur hins vegar úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um kyrrsetningu eigna frá 12. október. Dómari í málinu hafði fjórar vikur til að kveða upp úrskurð. Málið var tekið til úrskurðar 9. september og því kom úrskurðurinn tæpri viku of seint. Samkvæmt lögum hefði þurft að flytja málið aftur nema að dómari og málsaðilar teldu það óþarft. Af þessum sökum sendi Hæstiréttur kröfuna aftur heim í hérað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert