Reynt að semja um makrílinn

Viðræður standa yfir í bænum Clonakilty á Írlandi þar sem reynt er að ná samkomulagi um makrílveiðar í Norðaustur-Atlantshafi. Viðræðurnar hafa staðið yfir frá því á þriðjudaginn og er reiknað með að þeim ljúki í dag. Aðalsamningamaður Íslands er sem fyrr Sigurgeir Þorgeirsson samkvæmt upplýsingum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Haft er eftir Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, á fréttavefnum Fis.com í gær að hann fagni viðræðum um skiptingu makrílkvóta næsta árs. „Ég er mjög ánægður með að Írland sé gestgjafi þessara viðræðna. Makríll er mikilvægasti fiskistofn írska fiskveiðiflotans og við verðum að ná alþjóðlegum samningi um það hvernig honum er stýrt. Ég vona mjög að það verði hægt að ná samningi um sjálfbært fyrirkomulag í vikunni í viðræðum sem verða án efa einbeittar og erfiðar.“

Markmið viðræðnanna er að reyna að ná samkomulagi á milli Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja vegna ársins 2016. Rússar og Grænlendingar taka einnig þátt í fundinum sem áheyrnarfulltrúar. Sjötíu manns koma að viðræðunum samkvæmt fréttinni. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar náðu samkomulagi um makrílveiðarnar í byrjun síðasta árs. Ísland var ekki aðili að þeim samningi.

mbl.is