Fer ekki gegn varaformanninum

Daníel Haukur Arnarsson, starfsmaður Vinstri grænna, á landsfundi flokksins í …
Daníel Haukur Arnarsson, starfsmaður Vinstri grænna, á landsfundi flokksins í dag. mbl.is/Guðmundur Karl

Daníel Haukur Arnarsson, starfsmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til embættis varaformanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en mjög hefur verið þrýst á hann að undanförnu að sækjast eftir embættinu.

Meðal þeirra sem skorað hafa á Daníel Hauk eru Ungir vinstri grænir, sem segja rekstur hreyfingarinnar hafa „umturnast“ frá því að hann tók við embætti starfsmanns hreyfingarinnar, tveir fyrrverandi framkvæmdastjórar Vinstri grænna, Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi og Sóley Björk Stefánsdóttir, sem sæti á í bæjarstjórn Akureyrar.

Spurður hvers vegna hann muni ekki gefa kost á sér til embættis varaformanns svarar Daníel Haukur: „Ég tek heildarhagsmuni hreyfingarinnar fram yfir mína eigin. En vissulega hefur einnig verið þrýst á mig úr ýmsum áttum og meðal annars sagt að ég geti ekki boðið mig fram vegna þess að ég er starfsmaður hreyfingarinnar. Því hefur einnig verið haldið fram að ég hafi búið til kjörbréf, sem er alls ekki rétt,“ segir Daníel Haukur í samtali við mbl.is, en blaðamaður náði tali af honum á landsfundi flokksins sem haldinn er á Selfossi.

Varaformaður Vinstri grænna er Björn Valur Gíslason. Spurður hvernig hann meti stöðu hans innan flokksins svarar Daníel Haukur: „Ég met hana fína og á ég von á því að hann verði kosinn á morgun. Það er gott að vinna með honum, en það eru hins vegar raddir innan hreyfingarinnar sem benda á að Björn Valur hafi ekki sinnt ákveðnum störfum, á borð við innra starfi, nægjanlega vel.“ 

Fyrri fréttir mbl.is:

Forgangsraða í þágu hinna ríku

„Við erum aflögufær þjóð“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert