Óríonítar fyrir ofan Garðabæ í gærkvöldi

Neðst til hægri má sjá glitta í Óríoníta.
Neðst til hægri má sjá glitta í Óríoníta. Af Wikipedia

Loftsteinadrífan Óríonítar er í hámarki um þessar mundir og mátti m.a. sjá hana vel úr Kópavogi í gærkvöldi. Samkvæmt ábendingu sem mbl.is barst mátti sjá 6-8 ljósblá ljós yfir Garðabæ í um þrjá tíma í gærkvöldi.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að Óríoníta megi rekja til rykslóðar sem halastjarnan Halley hefur skilið eftir sig á ferðalögum sínum inn í innra sólkerfið. Drífan dregur nafn sitt af stjörnumerkinu Óríon. Loftsteinadrífan stendur yfir frá 15. til 29. október á hverju ári en nær hámarki 20.-22. október

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og einn af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins, að gott sé að miða á Fjósakerlingarnar þrjár sem flestir þekkja til þess að sjá drífuna. Engin tæki eru nauðsynleg heldur duga augun.

 „Það er best að sjá þetta á morgnana þó að drífan sjáist alveg á kvöldin. Það er betra að vakna snemma en vaka lengi og horfa þá í áttina að Óríon, sem flestir þekkja sem Fjósakerlingarnar þrjár. Það getur verið þolinmæðisverk að fylgjast með stjörnum en núna tekur um hálftíma til klukkutíma að fylgjast með,“ er haft eftir Sævar í Morgunblaðinu í gær.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert