Séreignarsparnaðarleiðin til frambúðar

Bjarni Benediktsson setti 42. landsfund Sjálfstæðisflokksins í dag.
Bjarni Benediktsson setti 42. landsfund Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson sagði í setningarræðu sinni á landsfundi að ágætlega gangi hjá Sjálfstæðisflokknum, en betur mætti ef duga skyldi við að endurheimta traust og stuðning, sérstaklega í höfuðborginni. Þá þakkaði hann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanni flokksins, fyrir vel unnin störf í þágu Sjálfstæðisflokksins, en fyrir það uppskar hann standandi lófaklapp landsfundargesta.

„Það er margt sem gengur ágætlega hjá okkur um þessar mundir, en við í Sjálfstæðisflokknum vitum þó að enn þarf að endurheimta traust og stuðning, ekki síst hér í höfuðborginni. Það mun ekki gerast af sjálfu sér.  Við þurfum öll að leggjast á eitt og vera reiðubúin til að breyta því í áherslum okkar, verklagi, skipulagi og starfsháttum sem breyttir tímar kalla eftir,“ sagði Bjarni í ræðunni. 

„Við stöndum á sterkum grunni - en okkur hefur ekki tekist að koma stefnumálum okkar nægilega vel á framfæri.  Þetta verðum við að horfast í augu við ef eitthvað á að breytast. Með góðum  grunngildum og skýrri stefnu sem við vitum að á erindi við landsmenn er okkur ekkert að vanbúnaði. En rétt breyttar áherslur, rétt hugarfar, bjartsýni, sigurvissa og sveigjanleiki þurfa að vera með, eigi árangur að nást.“

Vinnumarkaðinn upp úr hjólförunum

Bjarni sagði í ræðu sinni að um tíma hafi hann eygt von um að vinnumarkaðurinn væri á leið upp úr þeim hjólförum sem hann hafi verið í um áratugaskeið. 

„Um tíma virtist sem vinnumarkaðnum ætlaði að takast að koma sér upp úr þeim hjólförum sem hann hefur verið í of lengi. Að loks yrði bundinn endi á höfrungahlaupið, þar sem hver stéttin á fætur annarri hefur talið eðlilegt að sækja sér kjarabætur með því að stökkva yfir þá næstu,“ sagði Bjarni.

„En niðurstaðan er önnur.  Sú lota kjaraviðræðna sem hófst í fyrra og er nú langt komin mun enda með hækkunum sem eru langt umfram framleiðniaukningu í landinu og því veruleg hætta á að nafnlaunahækkanir skili sér ekki að fullu í bættum kaupmætti þegar upp er staðið,“ sagði hann, og spurði hver bæri ábyrgð á því.

„Mín skoðun er sú að það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði á vinnumarkaðnum sé gengið sér til húðar. Það þarf stærri hugsun, við þurfum saman að bera ábyrgð á heildarniðurstöðunni og við getum ekki látið það gerast að einstaka hópar komi í sífellu með sínar sérkröfur og knýi fram hækkanir sem verða um leið lágmarksviðmið næsta viðsemjanda,“ sagði Bjarni.

„Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að breyta þessu.  Að byggja undir frekari stöðugleika á Íslandi. Þetta eru grundvallarmál sem hafa haft afgerandi áhrif á þróun verðlags og vaxta - og þar með lífskjara í landinu,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

„Með sameiginlegu átaki er hægt að ná meiri stöðugleika og leggja grunn að lægri vöxtum til frambúðar. Mikilvægur liður í því að treysta stöðugleikann eru umbætur í opinberum fjármálum. Fyrir þinginu liggur frumvarp um opinber fjármál sem ég legg höfuðáherslu á að verði samþykkt.  Í því er meðal annars að finna fjármálareglur sem setja okkur mörk um skuldsetningu - skuldaþak - og meiri langtímahugsun er innleidd í alla áætlanagerð og stefnumótun.“

Séreignarsparnaðarleiðin fest í sessi

Bjarni sagði í setningarræðu sinni að góð reynsla væri af séreignarsparnaðarleiðinni svokölluðu, þar sem fólki væri gert kleift að leggja séreignarsparnað inn á húsnæðislán eða safna fyrir útborgun við fyrstu íbúðarkaup.

„Það hefur löngum verið stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið, en þessi stærsta fjárfesting fjölskyldna hefur alltaf verið átak og þannig verður það áfram. Við ætlum að gera ungu fólki auðveldara að eignast sína fyrstu íbúð. Þetta er í dag eins og löngum áður eitt helsta hagsmunamál ungra fjölskyldna í landinu,“ sagði Bjarni.

 Meðal aðgerða verði að festa séreignarsparnaðarleiðina í sessi. Sú leið hefur gengið vel, við veitum um hálfan milljarð í skattafslátt á hverjum mánuði til þeirra sem vilja taka út sparnað og leggja inn á húsnæðislán. Við eigum að auka enn frekar við hvata til sparnaðar. Umfram það sem nú gildir. Það myndi þýða enn frekari skattafslátt til þeirra sem spara fyrir íbúðarkaupum - til þeirra sem ætla að leggja til hliðar fyrir fyrstu kaupum eða hafa nýlega fjárfest í eign,“ sagði hann í ræðu sinni.

Aðalatriðið sagði Bjarni væri að styðja við þá sem vilja spara og sýna fyrirhyggju, standa í skilum og sýna ábyrgð. „Slíkt kerfi gæti á endanum komið í stað vaxtabótakerfisins en meðan það er við lýði er góð hugmynd að bæturnar renni beint inn á lánin. Til hliðar við þetta fyrirkomulag mun áfram þurfa úrræði fyrir tekjulága leigjendur og ríkisstjórnin hefur skýr áform, sem kynnt voru fyrr á árinu, um styrkingu þess kerfis og uppbyggingu félagslegs húsnæðis.“

Mikil jöfnuður á Íslandi

Bjarni gerði jöfnuð einnig að umtalsefni sínu í ræðunni.

„Á Íslandi ríkir mikill jöfnuður, meiri en almennt gerist í öðrum löndum. Margir halda því fram að það sé okkur sjálfstæðismönnum ekki að skapi. Þetta er rangt. Jöfnuður er efnahagslega- og félagslega mikilvægur og nátengdur gamalgrónu slagorði okkar ,,stétt með stétt”. Ég hef ávallt litið svo á að á Íslandi sé í gildi óskrifaður samfélagssáttmáli um að við eigum að ganga þannig fram að það efli samheldni og samhug - að í þessu samfélagi eigi enginn að sitja eftir,“ sagði Bjarni í ræðunni.

„Forréttindi og hvers kyns forgangur sumra umfram aðra eru á svig við þennan samfélagssáttmála. Hér eiga allir að hafa jöfn tækifæri. Það er kjarnaatriði. Við Sjálfstæðismenn leggjum áherslu á tækifærin - jöfn tækifæri allra til að blómstra og láta til sín taka,“ sagði hann.

„Við ömumst ekki við því þótt sumum farnist betur á lífsleiðinni en öðrum, það er gangur lífsins. Vinstrimenn á hinn bóginn virðast aldrei hafa séð nægan jöfnuð - þeir vilja beita miðstýringu og opinberum afskiptum af öllum sviðum mannlífsins til að tryggja jafna útkomu allra. En heilbrigð skynsemi segir okkur, að ef frumkvæði fólks er bælt með þeim hætti tapa allir. Með því er grafið undan framþróun og verðmætasköpun, sem aftur er forsenda bættra lífskjara. Fyrir vikið verður minna fyrir alla. Og þó að það gerist í nafni jafnræðis verður það aldrei jafn leikur. Mannkynssagan kennir okkur það,“ sagði Bjarni.

Frá setningu landsfundar.
Frá setningu landsfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Frá setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Fræa setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Fræa setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert