Úrelt tækni getur kostað mannslíf

Starfsfólk á bráðamóttöku
Starfsfólk á bráðamóttöku Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á meðan biðstofan á bráðamóttökunni er full af sjúklingum eyðir bráðalæknir meira en helmingi af tíma sínum að berjast við handónýtt tölvukerfi. Þetta getur kostað mannslíf og dæmi eru um að sjúklingar hafi dáið eða rétt bjargast þar sem upplýsingar um þá berast ekki eða eru ekki skoðaðar.

Fjallað var um öryggi sjúklinga kvenna- og barnasviðs Landspítalans á ráðstefnunni Fjölskyldan og barnið. Tölvukerfið sem notað er á Landspítalanum, Saga, var innleitt árið 1994 og var upprunalega smíðað fyrir heilsugæsluna.

Úrelt tölvutækni á Landspítalanum

Á Landspítalanum er ekki einu sinni sér tölva fyrir hvern lækni og oft getur reynt á þolrif þeirra að reyna að tengjast tölvukerfinu þar sem tækin eru úrelt. Davíð Þórisson, bráðalæknir á bráðamóttökunni í Fossvogi, segir að það verði að bregðast við þessu, til að mynda með því að spjaldtölvu- og snjallsímasvæða starfsfólk. Þannig væri hægt að skrá upplýsingar inn um sjúklinga strax og jafnvel senda mynd til sérfræðilækna sem geta veitt upplýsingar strax í stað þess að eyða deginum í mörg hundruð músarklikk á dag.

Fyrirlestur Davíðs nefndist: „Lést úr skráningu - áður óþekktur sjúkdómur í rafrænni sjúkraskrá“.

Fengju tveir nýútskrifaðir flugmenn að fljúga í óveðri?

Hann tók nokkur dæmi af alvarlegum atvikum sem hafa komið upp á Landspítalanum enda sé ýmsu ábótavant í skráningum en Ísland er ekkert einsdæmi þegar kemur að sjúklingaskaða því nýverið kom út skýrsla sem sýnir um 400 þúsund sjúklingar verða fyrir skaða á ári í Bandaríkjunum. Þetta eru mun hærri tölur sem áður hafa sést. Ef þessar tölur yrðu yfirfærðar á Ísland þá væri verið að tala um 400 Íslendinga á ári, sem svarar til tveggja flugslysa á ári. Hann segir að þetta sé gróft mat en gefi til kynna að um stórt vandamál sé að ræða.

Elísabet Benedikz, yfirlæknir á gæða- sýkingarvarnardeild LSH, og Birgir Jakobsson landlæknir komu einnig að samanburði við flugrekstur í sínum fyrirlestrum á ráðstefnunni eða eins og þau eru sammála um, öryggið í flugi er mun meira en í heilbrigðiskerfinu.

Elísabet benti á að það yrði seint sem tveimur nýútskrifuðum flugmönnum yrði treyst fyrir því að fljúga fullri farþegaþotu í illviðri en ekki er óalgengt að tveir læknakandídatar séu saman að störfum á Landspítalanum.

20 alvarleg tilvik á tveimur árum

Davíð segir að þegar alvarleg atvik koma upp í flugi þá sé það sýnilegt en þegar það gerist inni á stofnunum þá þyki það í sjálfu sér ekkert merkilegt. Sjúklingar deyja oft og þykir ekkert óeðlilegt við það en þegar farið er að skoða hlutina nánar þá kemur ýmislegt í ljós.

Á árinu 2013 var byrjað að rótargreina á Landspítalanum en er gert þegar alvarleg tilvik koma upp á sjúkrahúsinu, þá er greint hvað fór úrskeiðis eða hefði mátt betur fara. Frá þeim tíma hafa 20 slík tilvik verið rannsökuð að sögn Elísabetar.

Davíð fór að skoða þessar rótargreiningar og sá að ýmislegt er athugavert við skráningar á sjúklingum þó svo hann ætli ekki að fullyrða að það sé orsakavaldur eitt og sér en komi víða við sögu.

Vinnulistar illa hannaðir

Hann tók sem dæmi nýlegt tilvik þegar ung stúlka leitaði á bráðamóttöku með kviðverk sem virðist við rannsókn vera frekar saklaust. Hún fer heim en kemur aftur viku síðar þegar móðir hennar hafði komið að henni nánast rænulausri. Stúlkan er flutt á bráðamóttöku með sjúkrabíl og þegar hún kemur þangað er hún í losti og með háan hita og lífsmörk brengluð. Hún er lögð inn á gjörgæslu og þar kemur í ljós að hún er í eiturlosti af völdum klasakokka (staphylococcal toxic shock syndrome) en dánartíðnin er 50% af völdum sjúkdómsins.

Stúlkan var viku á gjörgæslu og tíu daga á almennri deild. Það kemur síðar í ljós að tekið var sýni í þvagræktun viku áður sem sýndi að hún var með streptokokka en niðurstaðan hafði einfaldlega ekki borist áfram í kerfinu.

Að sögn Davíðs á rafrænt kerfi að grípa inn í þegar svona gerist en miðað við það tölvukerfi sem er í notkun á spítalanum í dag þá er því ekki þannig farið. Sem betur fer fór allt vel en það verði að læra af tilvikum sem þessum.

Þrátt fyrir að spítalinn sé með vinnulista þá eru þeir illa hannaðir og gallarnir þannig að læknar hafa einfaldlega ekki tíma til að vinna í kerfinu, ekki er gert ráð fyrir að læknar fari í frí eða veikist eða skipti um deild. Það er góð hugsun á bak við vinnulistana en hún er illa útfærð. Til að mynda ef læknir pantar rannsókn en fer síðan á aðra deild þá getur það gerst að enginn fylgi niðurstöðunni eftir. Slík tilfelli hafa komið upp því miður.

Það er ekkert skrýtið þó að læknar vilji fá pappír og penna aftur – það virkaði oft betur en tölvukerfið sem notað er í dag.

Það er skortur á skráningum úti um allt sjúkrahúsið og ráðgjöf fer oft fram munnlega og er ekki skráð. Til að mynda á vaktaskiptum. Ekkert skráð. Símtöl við sjúklinga ekki skráð og svo mætti lengi telja. Það er auðvelt að kenna læknum um leti og að þeir nenni þessu ekki. Vandamálið er samt að við erum að drukkna í álagi og ef kerfið vinnur ekki með okkur þá getum við ekki sinnt þessu eins og við vildum gera.

Þessi tölvuvandræði og hvernig þarf að elta alls konar ólíka hluti uppi gera það að verkum að mistök verða, þetta veldur álagi og óánægju hjá viðkomandi og hefur áhrif á ákvarðanaröku.

4.000 músaklikk á vakt

Yfir helmingur tíma læknis á bráðamóttöku er í skráningu og tölvuvinnu á sama tíma og biðstofan er full af sjúklingum, segir Davíð og bætir við á einni tíu tíma vakt hjá lækni sem fylgst var með á bráðamóttöku reyndust músaklikkin vera um fjögur þúsund talsins. Sjúkrakerfið er þannig úr garði gert að tíma lækna er sóað og gæðin á skráningunni eru ekki nægjanleg.

Ekki nægjanlega farið eftir því sem kemur fram í skýrslum og sjúklingar deyja meðal annars vegna þess að upplýsingarnar berast ekki á milli sviða spítalans. Ef tölvukerfið er gott og í takt við nútímann þá er hægt að koma í veg fyrir alvarleg tilvik. Til að mynda hefur það í tvígang komið upp í rótargreiningartilvikum að endurlífgunarteymi hefur lýst yfir vandræðum á vettvangi þar sem það hefur ekki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum.

Mest notaða tækjatólið er úrelt tölvukerfi

Mest notaða tækjatólið sem er á Landspítalanum er Saga, kerfi sem er úrelt kerfi sem er smíðað af utanaðkomandi aðilum í stað þess að nýta sér þá þekkingu sem er til staðar inni á spítalanum. Það er gert í heimasmíðaðri lausn sem nefnist Heilsugátt og kostar spítalann minni pening en Saga gerir í dag. Í byrjun átti Heilsugáttin að styðja við stóra kerfið (Sögu) en síðan hefur þróunarvinnan gengið það vel í Heilsugáttinni að læknar og hjúkrunarfræðingar eru í náinni samvinnu með þróunarteymið þannig að hlutirnir gerast hratt. „Það eru alls konar hlutir á teikniborðinu sem ég held að muni leysa mörg þeirra vandamála sem ég ræddi um í fyrirlestri mínum í dag,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

Hann segir að það sé nauðsynlegt að laga þau tæki sem læknar og hjúkrunarfræðingar vinna með þannig að þau vinni með fólki í stað þess að eyða tíma starfsfólks. Saga var hönnuð fyrir heilsugæslu og var sett fram til að rafvæða eyðublöðin sem læknar nota. Kerfið var ekki hannað fyrir það vinnuflæði sem stundað er á hverjum degi á spítalanum.

Læknisfræðin er orðin það flókin í dag að það nær enginn læknir að halda í við það sem er að gerast. Það eina sem hægt er að gera er að nota tölvuna sem er orðin fljótvirk og hlaðin gögnum sem hægt er að nota sem hjálpartæki. Til dæmis að halda utan um hvort læknir hafi séð nótur frá öðrum lækni og viti því hvað er að gerast. Tölvukerfið Saga er orðið svo gamalt að það er ekki einu sinni hægt að tengja spjaldtölvur og snjallsíma við það. Vandamálið er að þetta er ekki tekið nógu alvarlega á stjórnendasviði. Það er stjórnendur líta á tæknina sem einhvern fylgifisk sem hangir með. Ef við lítum á Heilsugáttina þá eru þrír til fjórir forritarar að vinna við hana á meðan 8-10 forritarar eru að vinna í Sögu. Samt er þróunin að eiga sér stað í Heilsugáttinni.

10 tilvik á ári

Elísabet Benedikz yfirlæknir segir að flækustigið í heilbrigðisþjónustunni fari vaxandi meðal annars með auknu langlífi og því að stærri árgangar fólks með langvinna sjúkdóma lifi lengur. En vinnulag og þjónusta á spítalanum er ekki í takt við þetta. Ekki liggi fyrir nákvæmlega hversu marga sjúklinga LHS missi á hverju ári en ekki nema 10 andlát eða alvarleg tilvik eru skráð á hverju ári.

Hún bendir á að það sé mannlegt að mistakast og kerfin byggist á mannlegum þáttum. Starfsfólk heilbrigðisþjónustu sé mannlegt en það sé ófyrirgefanlegt að hylma yfir mistök og ekki nóg að vona að betur gangi næst.

Með rótargreiningu sé reynt að komast að því hvað hafi raunverulega gerst, finna undirliggjandi orsakir og kerfisvandamál sem ýta undir mannleg mistök. Með markvissum umbótum sé hægt að koma í veg fyrir endurtekningar því það koma alltaf nýir og nýir kandídatar sem þurfa að fá aðstoð. En það má ekki gleyma því að rótargreining er ekki lækning heldur er hún skipulagður rannsóknarferill sem hægt er að nýta til þess að komast að því hvers vegna frávikið varð.

Sömu vandamálin þvert á deildir

Að sögn Elísabetar er 15 rótargreiningum lokið af þeim tuttugu sem gerðar hafa verið frá 2013 og flest tilvikin komi af skurðsviði sem sé eðlilegt því þar séu ferlarnir svo augljósir að ef eitthvað fer úrskeiðis þá sést það.

Þetta hafi leitt í ljós að keimlík vandamál endurtaka sig innan starfseininga en einnig einstök vandamál í nærumhverfi einstakra starfseininga. Síðan endurtaka sömu vandamálin sig þvert á starfseiningar, svo sem ónógt eftirlit með sjúklingum. Það er einfaldlega ekki nægur mannskapur til þess og eins eru brestir í samskiptum og miðlun upplýsinga.

Landlæknir veltir fyrir sér hvernig hægt sé að koma á sambærilegu öryggi í heilbrigðiskerfinu og er í fluginu. Til að mynda ef eitthvert frávik verður í flugi þá er það talið alvarlegt. Heilbrigðisþjónusta á að vera örugg og hún á að vera miðuð við þarfir notenda. Hún á að vera skilvirk og það á að gæta jafnræðis.

Að sögn Birgis er heilbrigðisþjónustan betri í dag en hún var fyrir nokkrum áratugum. Betri lyf og betri menntun en samtímis er hún orðin meira meðvituð um að það sé víða pottur brotinn sem starfsfólk í heilbrigðisþjónustu gerði sér kannski ekki grein fyrir áður.

4000 þúsund músasmellir á vakt
4000 þúsund músasmellir á vakt Ásdís Ásgeirsdóttir
Birgir Jakobsson, landlæknir og Ebba Margrét Magnúsdóttir fundarstjóri á ráðstefnunni …
Birgir Jakobsson, landlæknir og Ebba Margrét Magnúsdóttir fundarstjóri á ráðstefnunni Fjölskyldan og barnið mbl.is/Eggert
Elísabet Benedikz, yfirlæknir á gæða- og sýkingarvarnardeild Landsspítala
Elísabet Benedikz, yfirlæknir á gæða- og sýkingarvarnardeild Landsspítala mbl.is/Eggert
Frá ráðstefnu kvenna- og barnasviðs LSH
Frá ráðstefnu kvenna- og barnasviðs LSH mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert