„Við erum aflögufær þjóð“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á landsfundinum.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á landsfundinum. mbl.is/KHJ

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hóst laust eftir klukkan 16 í dag, en fundurinn er haldinn á Selfossi. Eftir setningu fundarins voru meðal annars starfsmenn hans kosnir í embætti og farið yfir skýrslu stjórnar.

Þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, steig í pontu afhjúpaði hún nýtt merki hreyfingarinnar við mikinn fögnuð viðstaddra. Að því loknu minntust hún og aðrir fundarmenn Guðbjarts Hannessonar, alþingismanns og fyrrverandi ráðherra, sem lést síðastliðna nótt. 

Í ræðu sinni kom Katrín víða við, en málefni flóttafólks og náttúru voru formanninum hins vegar hugleikin. Vék Katrín meðal annars að hinu svokallaða „góða fólki“ sem áberandi hefur verið í þeirri umræðu er tengist málefnum flóttafólks. 

Núorðið eru fjölmiðlahetjur, ekki síst til hægri, farnir að tala mikið um hið svokallaða „góða fólk“. Þessu hugtaki virðist, meðal sumra, ætlað að gera lítið úr hugmyndum um félagslegan jöfnuð og réttlæti og þeim sem fyrir því vilja berjast,“ sagði Katrín og hélt áfram:

„Þegar Íslendingar buðu sig unnvörpum fram til að taka á móti flóttafólki með alls kyns framlögum, íslenskukennslu, gistingu og svo mætti lengi telja mátti heyra umræðuna vakna um „góða fólkið“ sem alltaf þættist vera siðferðilega betra en aðrir,“ sagði Katrín.

Velti hún því næst upp þeirri spurningu hvort „góða fólkið“ væri ekki bara að reyna að taka þátt í mannúðlegu samfélagi í mannúðlegum heimi. Sagði Katrín mannúð snúast um að reyna að breyta rétt. Er því mikilvægt, að hennar mati, að láta málefni flóttafólks sig varða. 

„Þegar við samþykkjum að verja tveimur milljörðum í að styðja við flóttamenn þá eigum við ekki að senda öðru fólki, öðrum fjölskyldum, bréf og segja þeim að það sé ekki velkomið,“ sagði Katrín og bætti við að áskoranir dagsins væru miklar og krefjandi.

„Tugir milljóna manna streyma í okkar heimsálfu frá stríðshrjáðum svæðum. Ég ætla ekki að láta eins og úrlausnarefnið sé einfalt, það er það ekki. En reglurnar okkar eru mannanna verk. Og við verðum að hafa hugrekki til að breyta þessum reglum í samræmi við breyttan veruleika. Við erum aflögufær þjóð og við verðum að sýna það í verki. Ekki af því að við þykjumst vera góð heldur af því að það er rétt. Og við eigum ekki að láta óttann við hið ókunna stjórna okkur í þeim efnum.“

Afhjúpað var nýtt merki Vinstri grænna á fundinum.
Afhjúpað var nýtt merki Vinstri grænna á fundinum. mbl.is/Guðmundur Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert