Annar valkostur fyrir VG

Sóley Björk segist vilja bjóða annan kost.
Sóley Björk segist vilja bjóða annan kost.

Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti Vinstri Grænna á Akureyri, ákvað seint í gærkvöld að sækjast eftir varaformannsembætti flokksins og bjóða sig fram gegn Birni Vali Gíslasyni, sitjandi varaformanni sem einnig er úr suðaustur kjördæmi en kosningar standa nú yfir.

„Mér finnst svo mikilvægt að við höfum val og séum óhrædd við að bjóða okkur fram í í stöður sem við erum tilbúin að gegna,“ segir Sóley. Hún kveður framboð sitt sett fram í vinsemd og virðing og segir markmið sitt í raun vera það að bjóða flokksmönnum upp á annan og ólíkan kost en Björn Val.

„Við erum ólík að mörgu leiti. Hann er svo mikill nagli, hann er flottur töffari en ég er svo miklu meiri málamiðlunarmanneskja. Ég hef mikinn áhuga á innra starfi flokksins, ég hef mikinn áhuga á samskiptum fólks og ég held að þeir eiginleikar geti nýst VG í að bæta innra starfið enn frekar.“

Sóley var meðal þeirra flokksmanna sem lýst höfðu yfir stuðningi við Daníel Hauk Arnarsson, starfsmanns Vinstri Grænna, í embætti varaformanns en hann tilkynnti í gær að hann hyggðist ekki bjóða sig fram þrátt fyrir mikinn þrýsting, m.a. frá ungliðahreyfingu flokksins.

„Þegar Daníel ákvað að bjóða sig ekki fram hugsaði ég að ég vildi fá valkosti, ég vildi að Daníel myndi gera þetta en maður á ekki alltaf að bíða eftir því að aðrir geri hlutina. Ég trúi því að maður eigi að vera breytingin sem maður vill sjá og maður á að stíga fram að gera það sem maður vill að sé gert. Ég tel mig ákjósanlegan kost í þetta embætti og ég hef tíma til að sinna því. Því fannst mér ekkert því til fyrirstöðu að stíga fram.“

Sóley segist ekki sjá fyrir sér róttækar breytingar á störfum flokksins næsta árið en að hún vilji að lögð sé mun meiri áhersla á innra starfið og samtalið milli flokksmanna. „Það er áhersla mín og ég held að ég geti gert það mjög vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert