Guðlaugur Þór stígur til hliðar

Áslaug Arna á landsfundi.
Áslaug Arna á landsfundi. Mynd af Twitter-síðu ungra sjálfstæðismanna.

„Ég er bara orðlaus, svona vægast sagt,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í samtali við mbl.is, eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson, mótframbjóðandi hennar til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins og sitjandi ritari, ákvað að draga framboð sitt til baka.

„Þetta var ekki það sem ég bjóst við þegar ég tók þessa ákvörðun í hádeginu í dag, eftir að ungt fólk hafði staðið sig ótrúlega vel hér á landsfundinum. Við getum ekki verið að kvarta undan flokknum og að það sé ekkert ungt fólk í honum ef við gefum ekki kost á okkur sjálf.“

Áslaug er 24 ára laganemi við Háskóla Íslands en áður hefur hún gegnt embætti formanns Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

„Ég vil að ungt fólk sjái að það er hægt að hafa áhrif og breyta stjórnmálunum. Flokkarnir eru að fá lítið fylgi og það er skiljanlegt, þeir eru ekki að höfða til ungs fólks. Það á við um flesta flokka, að minnsta kosti fjórflokkana. Ég tók mið af þessu þegar ég tók þessa skyndiákvörðun. Þetta er liður í því að ungt fólk taki skrefið fram og breyti hlutunum. Ég vildi þannig athuga hvort að flokkurinn væri opinn fyrir því eða hvort hann liti á okkur sem eintómt skraut.“

Þá segist hún hafa mikinn áhuga á innra starfi flokksins. „Það er það sem starf ritara gengur að vissu leyti út á, að efla flokkinn innan frá og bæta ímynd hans út á við.“

Hún segir þá spurningu hafa vaknað, hvenær ungir Sjálfstæðismenn fái að vera fyrir alvöru í Sjálfstæðisflokknum. „Við höfum einhvern veginn verið unga fólkið sem stendur utan við þetta allt saman og erum oft á tíðum svolítið skraut. Það var hugmyndin, að sjá hvort flokkurinn vildi sjá svona unga manneskju í forystusveitinni.“

mbl.is