Halda Landspítala við Hringbraut

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heitar umræður um staðsetningu Landspítalans voru á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag en kveikjan var breytingartillaga er kvað á um að orðin „við Hringbraut“ yrði fellt út úr ályktun velferðarnefndar um áframhaldandi uppbyggingu spítalans.

Með töluverðum meirihluta var tillagan felld og verður því áfram miðað við núverandi staðsetningu í ályktunardrögum.

Elín Hirst, þingmaður flokksins, sagðist m.a. hafa það Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, að stóraukinn kostnaður og tafir myndu fylgja nýju staðarvali. Aðrir sem tóku til máls töldu hins vegar að sparnaður gæti hlotist af þessu og að starfsemin þyrfti ekki að vera í miðbænum. 

Margoft farið í gegnum þetta

Björn Zoega, fyrrum forstjóri Landspítalans, tók til máls og ítrekaði þörfina á stækkun. „Fyrir hvert ár sem við bíðum erum við að tapa miklum peningum,“ sagði hann og bætti við að margoft væri búið að fara í gegnum þessi staðsetningarmál. „Það er búið að reikna þetta og skoða þetta,“ sagði hann og bætti við að halda ætti áfram á sömu braut.

„Við þurfum að byrja að byggja,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður, og sagði fimm ára töf fylgja nýju staðarvali. „Þess vegna mun ég fella þessa breytingartillögu.“

Samþykkt ályktunardrög hljóða svo: „Landsfundur telur mikilvægt að efla Landspítala háskólasjúkrahús við Hringbraut með áframhaldandi uppbyggingu og bættri aðstöðu. Samhliða uppbyggingu Landspítalans verði aðferðir við fjármögnun sjúkrahúsa skoðaðar.“

Hér má skoða ályktunardrög velferðarnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert