Stefna á raunhæfar aðgerðir

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir var sjálfkjörinn í embætti formanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins nú fyrir skömmu. Nú standa yfir kosningar í varaformannsembætti flokksins og stendur valið á milli Björns Vals Gíslasonar og Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur. mbl.is náði tali af Katrínu í röðinni að kjörseðlunum og var hún að vonum ánægð með niðurstöðuna.

„Ég er auðvitað bara mjög glöð og auðmjúk gagnvart því trausti sem hreyfingin sýnir mér enn um sinn til að gegna þessu embætti og mun reyna að standa undir því trausti.“

Katrín segist afar ánægð með framvindu landsfundarins hingað til og segir góðar og miklar umræður hafa átt sér stað sem veiti flokknum innblástur.

„Við erum auðvitað að setja okkur í stellingar fyrir að vinna að stefnumótun fyrir næstu kosningar sem eru eftir eitt og hálft ár. Það er verið að skerpa á stefnunni í helstu málaflokkum.“

Katrín segir að það sem flokkurinn horfi á í sinni stefnumótun séu ekki aðeins stóru málin heldur raunhæfar aðgerðir.

„Ég ætla að nefna eitt dæmi og það er tillaga sem liggur hérna fyrir um samfélagsbanka sem er tillaga sem aðrir hafa verið með og við höfum tekið undir. Það er dæmi um raunhæfa aðgerð þar sem við breytum því hvernig fjármálakerfið vinnur. Þetta varðar almenning í landinu og er eitt af því sem við erum að fá mjög mikil viðbrögð við. Þetta er eitt dæmi um það hvernig við setjum okkar stefnu niður í raunhæfar aðgerðir.“

Frá landsfundi Vinstri Grænna.
Frá landsfundi Vinstri Grænna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert