Alþjóðabjörgunarsveitin í startholunum

Alþjóðabjörgunarsveitin á Haítí árið 2010.
Alþjóðabjörgunarsveitin á Haítí árið 2010.

Ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákvörðun um að senda íslensku alþjóðabjörgunarsveitina til hjálparstarfa vegna jarðskjálftans í Afganistan ef neyðarkall um aðstoð berst, en jarðskjálfti upp á 7,5 á Richter reið yfir norðurhluta landsins í morgun.

Ljóst er að töluvert mannfall hefur orðið bæði í Afganistan og Pakistan en tölur eru þó nokkuð á reiki vegna skorts á upplýsingum. Alþjóðabjörgunarsveitin og utanríkisráðuneytið vinna nú að undirbúningi og kortlagningu slíkrar ferðar og hefur sveitin hækkað viðbúnaðarstig sitt eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar og er nú „tilbúin til útkalls“ (stand-by) og getur farið af stað með skömmum fyrirvara. 

Venjan er sú að alþjóðlegar björgunarsveitir fara ekki af stað nema formleg beiðni hafi borist frá stjórnvöldum þess lands er fyrir skaðanum varð. Slík beiðni hefur ekki borist en fulltrúar frá Sameinuðu þjóðunum meta nú ástandið.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, heimsótti björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð fyrr í dag og fékk upplýsingar um undirbúning sveitarinnar en stjórnendur hennar fylgjast nú náið með aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert