Heimsókn Cameron „söguleg stund“

Cameron og Sigmundur Davíð í Alþingi
Cameron og Sigmundur Davíð í Alþingi Mbl.is / Árni Sæberg

Heimsókn David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í Alþingishúsið var söguleg stund, en Cameron átti þar fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Cameron er fyrsti breski forsætisráðherrann sem kemur í Alþingishúsið frá því að Winston Churchill átti þar fund með Hermanni Jónassyni, þáverandi forsætisráðherra og Sveini Björnssyni, ríkisstjóra. Þetta segir í færslu á Facebook-síðu Einars K. Guðfinnssonar, forseta þingsins, sem hann birti í kvöld.

Einar bendir þó á að auk Camerons og Churchills hafi tveir aðrir forsætisráðherrar Bretlands, þeir Harold Macmillan og Alec Douglas Home, heimsótt landið, en síðasta heimsóknin var árið 1964. 

Sigmundur Davíð og Einar sýndu Cameron Alþingishúsið og að hefðbundnum sið ritaði hann nafn sitt í formlega gestabók þingsins. Segir Einar í færslunni að þeir hafi frætt Cameron um starfshætti þingsins og húsið sjálft. Sérstaklega hafi hann haft gaman af því að heyra lýsingar á sætaskipan þingsins, þar sem dregið er við upphafi hvers þings. Í breska þinginu er annar háttur hafður á, en þar sitja stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn gegnt hver öðrum.

Það var óneitanlega söguleg stund þegar David Cameron forsætisráðherra Bretlands kom í Allþingishúsið í dag til þess að...

Posted by Einar K. Guðfinnsson on Wednesday, 28 October 2015
mbl.is